2. feb 2016

Hreinsistöð fráveitu á Akureyri - umhverfismat

Mynd úr skólpdælustöð
Mynd úr skólpdælustöð

Norðurorka hf. tók við rekstri fráveitu á Akureyri í upphafi árs 2014 og hefur síðan verið unnið markvisst að endur-skipulagningu og úrbótum á veitunni.  Stærsta einstaka verkefnið sem fyrir liggur er bygging hreinsistöðvar og nýrrar útrásar við Sandgerðisbót. 

Mikil vinna hefur verið lögð í að rýna þær hugmyndir um hreinsistöð sem lágu fyrir þegar Norðurorka hf. tók við fráveitunni. Niðurstaðan er sú að fara aðra leið en upphaflega var áætlað sem meðal annars leiðir til lægri kostnaðar við framkvæmdina. Þá var í fyrri áætlunum gert ráð fyrir því að hreinsistöðin þyrfti ekki að fara í mat á umhverfisáhrifum.  Var þá byggt á því að stórnotendur fráveitunnar færu í breytingar hjá sér sem minnkuðu álagið á veituna og viðtakann þannig að það yrði undir þeim viðmiðunarmörkum sem lög og reglur gera ráð fyrir.

Þrátt fyrir að þessi aðferðarfræði geti verið góð og gild hefur Norðurorka hf. tekið ákvörðun um að ganga ekki út frá henni þegar kemur að ákvörðun um mat á umhverfisáhrifum.  Þetta þýðir í reynd að ekki verður beðið eftir því að einstakir viðskiptavinir fráveitunnar fari í aðgerðir hjá sér til þess að svonefnd persónueiningaviðmið verði innan þeirra marka sem heimili að ekki þurfi að fara í umhverfismat.  Þrátt fyrir þetta verður að sjálfsögðu áfram unnið að því að viðkomandi stórnotendur fráveitunnar fari í nauðsynlegar úrbætur hjá sér.  Norðurorka metur það hins vegar svo að skynsamlegt sé að fara með verkið í mat á umhverfisáhrifum svo að engin vafaatriði komi upp í ferlinu sem kynnu síðar að hafa áhrif á, eða mögulega tefja, framgang verksins.

Ljóst er að umhverfismatið mun hafa einhver áhrif á tímaramma verksins en þó er gert ráð fyrir að þau verði óveruleg.  Því er áfram stefnt að því að byggingu hreinsistöðvar og útrásar verði lokið á árinu 2018.