Í dag þykir okkur sjálfsagt mál að skrúfa frá heita vatninu hvort sem er í eldhúsinu við uppvaskið eða þegar við skellum okkur í sturtu. Það var þó ekki fyrr en í svonefndri olíukreppu á sjöundaáratugnum að verulegur skriður komst á leit að heitu vatni fyrir Akureyri en áður höfðu þó verið gerðar ýmsar tilraunir í þeim efnum enda komnar hitaveitur á ýmsum stöðum á landinu og þar á meðal á Ólafsfirði (1944) en þar er elsta starfandi hitaveitan innan vébanda Norðurorku.
Langstærstur hluti af því heita vatni sem Norðurorka hf. aflar fer til húshitunar og almennra heimilisnota eða rúmlega 60%. Því er mjög mikilvægt að heimilisfólk, jafnt ungir sem aldnir, séu meðvitaðir um helstu umgengnisreglur sem hafa ber í huga þegar heitt vatn er annars vegar.
Heita vatnið er heitt í orðsins fyllstu merkingu - hiti þess þegar það kemur inn í húsveitu er breytilegt eftir veitum en getur þar sem það er heitast verið um 90°C. Algengasti hitinn er þó um 75°C þegar það er sett út á kerfið en það á við langflest hús á Akureyri þar sem langflestir viðskiptavinir félagsins búa. Heitt vatn er hættulegt og getur valdið bruna þegar við 48°C (sjá nánari upplýsingar í bæklingnum stillum hitann). Er þetta meginástæða þess að í nýbyggingum er nú skylt að setja varmaskipti eða uppblöndunarbúnað á heitt neysluvatn þar sem takmarka skal hitann við 65°C og einnig skal koma fyrir hitastýrðum blöndunartækjum með sama hámarki.