Eðli málsins samkvæmt er rafmagnsöryggi mjög mikilvægt fyrir starfsemi Norðurorku. Rafmagnsöryggisstjórnkerfi er því hluti af gæðakerfi Norðurorku og er tekið út og vottað sem hluti af ISO 9001 vottun fyrirtækisins.
Störf við dreifikerfi Norðurorku eru margbreytileg og fela í sér verulega hættu sé reglum ekki fylgt. Allir starfsmenn sem ganga um starfsstöðvar dreifikerfisins sem og þeir sem starfa beint við það þurfa að ljúka sérstöku kunnáttumannanámskeiði. Strangar reglur gilda um öll störf við kerfið. Norðurorka leggur höfuðáherslu á að tryggja öruggan rekstur dreifikerfisins með reglubundnu eftirliti og viðhaldi þess.
Með sama hætti og mikilvægt er að tryggja öruggan rekstur dreifikerfisins er mikilvægt að umráða- og ábyrgðarmenn hverrar neysluveitu (húsveitu) fylgi viðurkenndum reglum um umgengni við slík kerfi og tryggi eftirlit og viðhald þeirra.
Kröfur sem varða neysluveitu (húsveitu) koma m.a. fram í tæknilegum tengiskilmálum raforkudreifingar (TTR) og í 6. kafla þeirra er m.a. fjallað um rafmagnsneyslutæki og einnig má finna leiðbeiningar á heimasíðu SART um neysluveitur (SART eru samtök fyrirtækja í rafiðnaði) og síðast en ekki síst á heimasíðu Mannvirkjastofnunar sem hefur yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum á Íslandi.
Hvað er neysluveita og hvernig er eftirliti með þeim háttað ?
Neysluveita er raflögn og rafbúnaður innan við stofnkassa í húsum. Á einni heimtaug geta verið fleiri en ein neysluveita. Raflagnir húsa skulu alltaf unnar á ábyrgð og undir handleiðslu löggilts rafverktaka. Mannvirkjastofnun hefur eftirlit með neysluveitum og Neytendastofa hefur eftirlit með þeim rafföngum sem ekki eru hluti af eða varanlega tengd mannvirkjum.
Tíu ráð um rafmagnið
- Munið eftir að slökkva á eldavélinni strax eftir notkun.
- Takið raftæki úr sambandi þegar þau eru ekki í notkun.
- Látið skipta strax um skemmdan rafbúnað.
- Setjið aldrei sterkari peru í lampa en hann er gerður fyrir.
- Hendið gömlum rafbúnaði sem er farinn að láta á sjá.
- Reynið ekki að gera það sem aðeins fagmenn ættu að gera.
- Prófið lekastraumsrofann nokkrum sinnum á ári.
- Gætið þess að raftæki sem eiga að vera jarðtengd séu það.
- Varist að staðsetja ljós of nálægt brennanlegu efni.
- Gefið gaum að merkingum raftækja.
Þú berð ábyrgð á ástandi þess rafbúnaðar sem er á þínu heimili. Ef þú hefur minnsta grun um að eitthvað sé athugavert skaltu leita hjálpar hjá löggiltum rafverktaka.
Úr bæklingi Neytendastofu - förum varlega með rafmagnið