100 ára afmæli hitaveitna á Íslandi árið 2008
Frumkvöðlar í upphafi 20. aldar
Dæmi um nýtingu heitra lauga til þvotta, iðnaðar, matargerðar og jafnvel lækninga er víða að finna í sögulegum heimildum. Upphaf hitaveituvæðingar á Íslandi er þó rakið til ársins 1908, en það ár var jarðhiti fyrst nýttur hér svo vitað sé til að hita upp íbúðarhús. Var þar að verki Stefán B. Jónsson, bóndi, trésmiður og frumkvöðull með meiru, að Suður-Reykjum í Mosfellssveit. Stefán leiddi vatn úr hver inn í bæinn. En jafnframt voru fleiri frumkvöðlar að huga að gerð hitaveitu á þessum árum. Jarðhitaorka er endurnýjanleg orkulind. Vinnsla jarðhita er sjálfbær ef aðstreymi til jarðhitasvæðanna er í jafnvægi við vinnsluna. Jarðhiti er víða í heiminum nýttur til raforkuvinnslu og jafnframt í mörgum löndum til húshitunar. Hvergi í veröldinni skipar þó jarðhiti jafn stóran sess í orkukerfinu eins og hér á Íslandi.
Hitaveitur spara Íslendingum 10 til 20 milljarða á ári
Húshitun með jarðhita hefur frá því um 1980 sparað Íslendingum 10 til 20 milljarða króna á ári sem ella hefðu farið í innflutning á olíu til brennslu – með tilheyrandi mengun. Í dag er mikið horft til kosta jarðhitans sem endurnýjanlegs orkugjafa sem gefur frá sér hverfandi lítið af gróðurhúsalofttegundum. Helsti hvatinn að virkjun jarðhitans hér á landi var á sínum tíma fjárhagslegur og áratugum saman hefur nýting jarðhitans sparað þjóðarbúinu mikinn innflutning á olíu og kolum og þannig skapað hér mikil verðmæti, auk þess að stuðla að bættum lífsgæðum. Á fyrri hluta 20. aldar var byggingum fyrir skóla og svonefnd heilsuhæli gjarnan valinn staður með hliðsjón af nálægð við nýtanlegan jarðhita. Fyrsta stórhýsi landsins sem hitað var upp með jarðhitavatni var Alþýðuskólinn á Laugum í Þingeyjasýslu (nú Framhaldsskólinn á Laugum), en bygging skólans hófst árið 1924 og hóf skólinn starfsemi árið 1925. Í blaðagrein var honum lýst sem „sannnefndu heilsuhæli“.