Um Orkey

Ýmsar breytingar hafa orðið á hluthafahópi Orkeyjar í gegnum árin en í dag er Norðurorka eini hluthafinn. 
Félagið var stofnað á Akureyri í ársbyrjun 2007 til að kanna hvort unnt væri að nýta tækjabúnað fiskimjölsverksmiðjunnar í Krossanesi til að framleiða jurtaolíu úr innfluttum Kanóla fræjum. Olíuna, 60-80 þúsund tonn á ári, átti að nýta sem eldsneyti í stað svartolíu á fiskiskipaflotann, en mjölið sem fóður.

Innflutningur frá Kanada

Fram fóru viðræður við kanadíska aðila um kaup á kanólafræjum (repjufræjum) og aðkomu þeirra að verkefninu, auk forhönnunar framleiðsluferlisins og mats á hagkvæmni. Um haustið, þegar niðurstöður hagkvæmnimats lágu fyrir, þótti óvissan of mikil og var félagið því lagt í dvala um sinn.

Úrgangi breytt í eldsneyti

Seinni hluta árs 2008 hófust að nýju vangaveltur um lífdísilframleiðslu og þá í þeirri mynd að byggja mun minni verksmiðju sem nýtti úrgang. Framleiðslugetan yrði árlega um 300 tonn af lífdísil úr notaðri steikingarolíu og dýrafitu. Áætlunin gerði ráð fyrir að framleiðslan hæfist í byrjun árs 2010 og myndi skapa 3-5 störf auk afleiddra starfa.

Uppsetning verksmiðju á Akureyri

Hönnun verksmiðjunnar hófst í ársbyrjun 2009 sem og ýmis gagna- og upplýsingaöflun er varðaði nýtingu notaðrar steikingarolíu ásamt dýrafitu til framleiðslunnar.

Verkefnið fékk styrk úr Vaxtasamningi Eyjafjarðar sem nýttur var meðal annars til smíði á lítilli tilraunaverksmiðju. Nokkrar bifreiðar og strætisvagn á Akureyri notuðu lífdísil framleiddan í tilraunaframleiðslueiningunni með góðum árangri.

Lífdísilverksmiðja Orkeyjar var gangsett í nóvember 2010 og getur framleitt um 300 tonn á ári sé hún rekin í 8 klst. alla virka daga vikunnar. Verksmiðjan var að mestu leiti smíðuð á Akureyri. Auka má afköst umtalsvert með endurbótum á framleiðsluferlinu.

Umhverfisvænt eldsneyti

Lífdísill Orkeyjar er framleiddur úr úrgangi (steikingarolía, fita) og eru nánast öll önnur efni í framleiðslunni af endurnýjanlegum uppruna: Metanól frá CRI, heitt vatn og rafmagn frá Norðurorku. Framleiðsla Orkeyjar er því eins umhverfisvæn og mögulegt er.

2011 var fyrsta heila rekstrarár Orkeyjar og voru framleiddir um 52.000 lítrar úr notaðri steikingarolíu. Í desember gekk Björgúlfur EA-312, fyrst fiskiskipa, fyrir lífdísli unnum úr steikingarolíu.

Í ársbyrjun 2013 var ákveðið að leggja áherslu á framleiðslu lífdísils fyrir skip, vinnuvélar og jafnvel rútur sem og til vegklæðinga. Í apríl 2013 hófst tilraunaverkefni með Samherja þar sem sérstök lífdísilblanda var notuð í stað innflutts eldsneytisíblöndunarefnis í MGO/MDO. Niðurstöður verkefnisins hafa verið jákvæðar og hefur Samherji keypt lífdísilblönduna, á fjögur skip, síðan. Heildarmarkaður hérlendis fyrir fiskiskipaflotann, alls 90 togskip, er áætlaður um 1.800 tonn á ári af lífdísilblöndu.

Samningur um söfnun hráefnis

Í byrjun maí 2013 var undirritaður samningur við Efnamóttökuna og Gámþjónustuna um söfnun notaðrar steikingarolíu á landinu öllu. Með samningnum jókst aðgengi Orkeyjar að hráefni verulega.