31. maí 2011

Ljóðasamkeppni Norðurorku - verðlaunahafar

Dómnefnd í ljóðasamkeppninni hefur lokið störfum.

Dómnefnd í ljóðasamkeppninni hefur lokið störfum og verðlaunaafhendingar eru að fara fram þessa daganna á skólaslitum í þeim grunnskólum þeirra nemenda sem unnu til verðlauna.

Um níuhundruð ljóð bárust frá nemendum fimmtán grunnskóla á starfssvæði Norðurorku.  Dómnefndin valdi þrjú ljóð í hverjum flokki til fyrstu, annarra og þriðju verðlauna en veitti auk þess auka verðlaun fyrir nokkur ljóð til viðbótar.

Í flokkinum 1. til 4. bekkur hljóta verðlaun;
1. verðlaun; Sindri Snær Stefánsson, 2. bekk Hrafnagilsskóla fyrir ljóðið "Tárið"
2. verðlaun; Járnbrá Karítas Guðmundsdóttir, 1. bekk Hrafnagilsskóla fyrir ljóðið "Fallegt vatn"
3. verðlaun; Hlynur Viðar Sveinsson, 4. bekk Brekkuskóla fyrir ljóðin "Kalda vatnið" og "Vonin"
aukaverðlaun í þessum flokki hlýtur;
Tinna Elísa Guðmundsdóttir, 2. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar fyrir ljóðið "Þegar rigningin fellur"

Í flokknum 5. til 7. bekkur hljóta verðlaun;
1. verðlaun; Ragnheiður Pétursdóttir, 7. bekk Brekkuskóla fyrir ljóðið "Vatnið er gjöf"
2. verðlaun; Mikael Ásgeirsson, 6. bekk Hríseyjarskóla fyrir ljóðið "Regn"
3. verðlaun; Katla Þórarinsdóttir, 6. bekk Grenivíkurskóla fyrir ljóðið "Vatn"
aukaverðlaun í þessum flokki hlýtur;
Margrét Árnadóttir, 6. bekk Lundaskóla fyrir ljóðið "Vatn fyrir alla"

Í flokknum 8. til 10. bekkur hljóta verðlaun;
1. verðlaun; Árni Kristinsson, 8. bekk Hríseyjarskóla fyrir ljóðið "Þorsti"
2. verðlaun; Hildur Ósk Erlendsdóttir, 10. bekk Brekkuskóla fyrir ljóðið "Leyndardómar vatnsins" 
3. verðlaun; Þórey Lísa Þórisdóttir, 10. bekk Brekkuskóla fyrir ljóðið "Hafið djúpa og bláa"
aukaverðlaun í þessum flokki hljóta;
Ingiríður Halldórsdóttir, 9. bekk Oddeyrarskóla fyrir ljóðið "Hugleiðing um vatnsdropa"
Halldóra Hlíf Hjaltadóttir, 10. bekk Glerárskóla fyrir ljóðið "Fjölbreytileiki"
Guðrún Sveinsdóttir, 10. bekk Valsársskóla fyrir ljóðið "Heppin ég"

Norðurorka þakkar frábærar undirtektir og þeim fjölmörgu sem skiluðu inn ljóðum eru færðar sérstakar þakkir sem og dómnefndinni sem fékk það erfiða en skemmtilega hlutverk að lesa yfir ljóðin og velja verðlaunaljóðin.  

Verðlaunaljóðin eru hér;

Tárið
Glært tár rennur niður ána.
Er hún að gráta?
Ég stend og stari en
áin heldur áfram
og glansar í sólinni.
Ég fæ mér að drekka
og geng af stað.

Sindri Snær Stefánsson – 2. bekk Hrafnagilsskóla

Fallegt vatn
Mig langar að eiga heima í vatninu,
því vatnið er svo fallegt.
Mig langar að sjá vatnsálfa
og gera með þeim regndropa.
Mig langar að sjá regnskýin
og mig langar að eiga vatn alltaf.

Járnbrá Karítas Guðmundsdóttir – 1. bekk Hrafnagilsskóla

Kalda vatnið                                                 
Ljúflega rennur það                                       
kalda vatnið,                                                 
ljúft er hljóðið                                                
frá vatnskrananum

Vonin
Ljúf er vonin
um að kalda vatnið
svali þorsta mínum,
kalda vatnið. 

Hlynur Viðar Sveinsson – 4. bekk Brekkuskóla

Þegar rigningin fellur
Þegar rigningin fellur,
þá rölti ég um,
læt regnið væta mig,
því mér finnst rigningin góð,og þá er ég planta,
og þá er ég lítið blóm,
sef er rigningin fellur.

Tinna Elísa Guðmundsdóttir – 2. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar

Vatnið er gjöf
Í litlum læk
og í látlausri á.
Þar rennur vatnið
líkt og gjöf
sem náttúran hefur gefið
okkur.

Ragnheiður Pétursdóttir – 7. bekk Brekkuskóla

Regn
Regnið
streymir
niður úr
himninum.
Fyrir Afríkubúa
sending frá guði.
Fyrir okkur sem
sjálfsagt veðurbrigði.

Mikael Ásgeirsson – 6. bekk Hríseyjarskóla

Vatn
Þegar við drekkum okkar góða vatn
hugsum við líklega ekki um börnin
í Afríku og Asíu
deyjandi úr þorsta.
Enginn gerir neitt,
hvað er að !!!
Við hugsum bara um okkur sjálf,
hvað um þau?
Æ,æ!

Katla Þórarinsdóttir – 6. bekk Grenivíkurskóla

Vatn fyrir alla
Vatn í krana, vatn í sjó,
vatn í rennandi blautum skó.
Vatn í laugum, vatn í ís.
Vatn sem drekka kettir og mýs.
Vatn í brúsa, vatn í krús,
vatn til að hita upp mitt hús.
Vatn sem er heitt, vatn sem er kalt,
vatn sem er eiginlega notað í allt.
Vatn fyrir alla, vatn fyrir mig
vatn fyrir heiminn og vatn fyrir þig.

Margrét Árnadóttir – 6. bekk Lundaskóla

Þorsti
Hvar er ég?
Hvernig komst ég hingað?
Eina sem ég veit er
að sólin hefur þurrkað allt,
nema einn lítinn poll.
Þessi pollur var svo kaldur,
tær og svalandi.
Þetta ferska vatn
náði að svala þorsta mínum
í þessari heitu eyðimörk.

Árni Kristinsson – 8. bekk Hríseyjarskóla 

Leyndardómar vatnsins
Vatnið,
djúpt og fallegt,
dularfullt og heillandi,
of fullkomið.

Það er eilíft,
það gefur líf,
það tekur líf.

Vatn,
svo kyrrt,
stórfenglegt og augnayndi,
gullfallegt.

Ég veit að vatnið,
er stórt, djúpt, hættulegt,
undarlegt,
en nauðsynlegt.

Hildur Ósk Erlendsdóttir – 10. bekk Brekkuskóla

Hafið djúpa og bláa
Ég horfi,
horfi á hafið,
hafið djúpa og bláa,
hafið.

Hafið sem allir elska,
hafið sem allir hræðast,
hafið sem rís og hnígur.
Hafið sem gefur
og hafið sem tekur.
Hafið,
svo dularfullt og fallegt.

Ég minnist þess,
er mér var sagt:
Ekki láta tæla þig.
En hafið,
hafið, svo stórt og fagurt.
Það dregur þig til sín
og vefur þig blautum örmum sínum,
og þú sérð.

Þórey Lísa Þórisdóttir – 10. bekk Brekkuskóla

Hugleiðing um vatnsdropa
Ég vildi ég
væri vatnsdropi.
Svo smár en samt
svo stór.

Kannski myndi ég  svífa úr skýi
og falla á kollinn á þér
eða ef til vill hitta húsið
sem yljar þér svo vel
en í staðinn er ég bara ég
svo ég bið þig að deila einni
vatnskönnu með mér.

Ingiríður Halldórsdóttir – 9. bekk Oddeyrarskóla

Fjölbreytileiki
Áin þýtur
brimið brýtur
vatnið niður fossinn hnýtur.

Flóðið æðir
niður hæðir
snærinn tinda fjallsins klæðir.

Vatnið upp úr goshver gýs
frostið breytir því í ís
myndast klaki er það frís.

Svalandi er sólin skín
inn um gluggann, inn til mín
regnið dynur og vindur hvín
byrgir fyrir mína sýn. 

Vatnið drykkur bestur er
í hollustunni af það ber
við erum heppin, trúðu mér
því við eigum nóg í landi hér.

Halldóra Hlíf Hjaltadóttir – 10. bekk Glerárskóla

Heppin ég
Ef ég byggi í Afríku
-        fengi ég kannski ekki hreint vatn að drekka
Ef ég byggi í Afríku
-        gæti ég kannski ekki baðað mig uppúr hreinu vatni
Ef ég byggi í Afríku
-        hefði ég kannski ekki hita í húsinu mínu
Ef ég byggi í Afríku
-        myndi ég kannski ekki hafa rafmagn

Ég get drukkið ferskt vatn
-        Heppin ég að búa á Íslandi
Ég get baðað mig uppúr hreinu vatni
-        Heppin ég að búa á Íslandi
Ég get haft hita í húsinu mínu
-        Heppin ég að búa á Íslandi
Ég get verið með rafmagn í húsinu mínu
-        Heppin ég að búa á Íslandi

Guðrún Sveinsdóttir – 10. bekk Valsárskóla