Góð ráð komi til þjónusturofs

Hvern dag allan ársins hring eru viðskiptavinir að nýta þjónustu okkar. Sem betur fer eru bilanir sjaldgæfar og ekki oft sem kemur til þjónusturofs af þeirra völdum.  Sömuleiðis þarf sjaldan að fara út í viðhald sem leiðir til víðtæks þjónusturofs þó svo að slíkt sé að sjálfsögðu óhjákvæmilegt á stundum.

Hér fyrir neðan má finna góð ráð til húsráðenda ef kemur til þjónusturofs.

Þjónsturof hitaveitu - ábendingar til húsráðenda

 1. Hafa þarf í huga að loft getur komist á kerfið þegar vatni er hleypt á að nýju. Sérstaklega getur þurft að huga að sérhæfðum búnaði hitakerfa húsa, s.s. gólfhitakerfum, hitalögnum í plönum og dælum þeirra, t.d. með því að stöðva þær á meðan vatnsleysi varir. Kerfin eiga þó að vera útbúin þannig að þessi hætta sé í lágmarki.

 2. Bregðast þarf við lofti í kerfum með lofttæmingu á ofnum, dælum og öðrum búnaði sem loft getur sest í. Einnig er nauðsynlegt að huga að öryggisloka sem getur opnast þegar vatni er hleypt á ef stjórnlokar á grind eru stirðir.

 3. Húsráðendum er bent á að við viðgerðir eða endurbætur á stofnkerfum og/eða heimlögnum kunna óhreinindi að fara af stað í lögnum þegar vatni er hleypt á. Því er nauðsynlegt að skola kerfið vel út með því að láta vatn renna um stund. Best er að útskolun fari fram sem næst inntaksstað sé þess kostur.

 4. Sé húsráðandi í vafa um hvernig bregðast á við skal undantekningalaust haft samband við við pípulagningameistara hússins.

Þjónusturof vatnsveitu - ábendingar til húsráðenda

 1. Sérstaka varúð skal sýna í umgengni við heitt vatn úr neysluvatnskrönum s.s. í eldhúsi og á baði þar sem kalt vatn til blöndunar er ekki tiltækt í vatnsleysi. Sérstaklega skal vara börn við þessari hættu og eftir atvikum skrúfa fyrir neysluvatnskrana á hitaveitugrind meðan á kaldavatnsleysi stendur.

 2. Húsráðendum er bent á að við viðgerðir eða endurbætur á stofnkerfum og/eða heimlögnum kunna óhreinindi að fara af stað í lögnum þegar vatni er hleypt á. Því er nauðsynlegt að skola kerfið vel út með því að láta vatn renna um stund. Best er að útskolun fari fram sem næst inntaksstað sé þess kostur.

 3. Ef kalt vatn er notað til kælingar á frysti/kælibúnaði skal gera viðeigandi ráðstafanir til að forðast skemmdir á búnaði.

 4. Sé húsráðandi í vafa um hvernig bregðast á við skal undantekningalaust haft samband við pípulagningameistara hússins.

Þjónusturof rafveitu - ábendingar til húsráðenda

 1. Ef rafmagn er ekki komið á eftir tilgreindan tíma skal aðgæta hvort lekaliði hefur slegið út.  Einnig er mögulegt að verkið hafi dregist og því sé rafmagn ekki komið á af þeim ástæðum.  Hafa skal samband við þjónustuver á tímabilinu kl. 8.00 – 16.00, s. 460-1300, en bilanavakt eftir það s, 892-1514.

 2. Hafa þarf í huga að aðgæta getur þurft ýmsan sérhæfðan búnað, bæði áður en rafmagn er tekið af og eins eftir að það kemur á.  Þetta getur átt við um ýmsan hjálparbúnað, öryggiskerfi og tölvukerfi o.s.frv. Til dæmis getur þurft að endurræsa bruna- og þjófavarnarkerfi. Þá getur verið nauðsynlegt að aðgæta ýmsan dælubúnað s.s. í hitakerfum m.a. að tryggja að ekki hafi komist loft í  þau.  Kerfin eiga hins vegar að vera útbúin þannig að þessi hætta sé í lágmarki.

 3. Öll nútíma rafmagnstæki eiga að þola það að rafmagn fari af húsveitu og því sé hleypt á að nýju.  Notendum er engu að síður bent á að séu þeir með viðkæman eða gamlan búnað eða tæki í notkun hjá sér getur verið skynsamlegt að hafa slökkt á honum á meðan að rafmagnsleysið varir.

 4. Sé húsráðandi í vafa um hvernig bregðast á við skal undantekningalaust haft samband við rafvirkjameistara hússins.

Þjónusturof fráveitu - ábendingar til húsráðenda

 1. Þjónusturof í fráveitu eru almennt fátíð.  Við þjónusturof fráveitu getur þurft að óska eftir því við húsráðendur að fráveita sé ekki notuð tímabundið.  Ef um stórar bilanir eða viðhaldsverkefni er að ræða er leitast við að tryggja fráveitu til bráðabirgða eftir öðrum leiðum, svo sem með bráðabirgðalögnum eða dælubílum.

 2. Húsráðendur þurfa að hafa í huga að stíflur í fráveitu eru ekki síður í húsveituhlutanum og því getur verið nauðsynlegt að leita til stíflulosunarfyrirtækja vegna þess eða pípulagningameistara hússins.

 3. Sé húsráðandi í vafa um hvernig bregðast á við skal undantekningalaust haft samband við pípulagningarmeistara hússins eða starfsfólk Norðurorku.