Umhverfismál

Norðurorka leggur mikla áherslu á umhverfismál og í umhverfisstefnu fyrirtækisins kemur meðal annars fram að fyrirtækið muni leita leiða til að  minnka kolefnisspor sitt.

Helstu aðgerðir fyrirtækisins til að draga úr kolefnislosun vegna starfseminnar er m.a. flokkun sorps auk þess sem áhersla er lögð á að kanna ávallt möguleikann á vistvænum bílum við endurnýjun á bílaflotanum.

Auk þess að vera með aðgerðir sem stuðla að minnkun beinnar losunar gróðurhúsalofttegunda vegna starfsemi fyrirtækisins leggur Norðurorka áherslu á bindingu kolefnis og bindur fyrirtækið mun meiri koltvísýring en það losar frá starfseminni.  
Sjá nánar í ársskýrslu.

Kolefnisfótspor Norðurorku

Aðgerðir Norðurorku til að minnka kolefnislosun

Fyrirtækið vinnur gagngert í að draga úr því kolefni sem það losar út í andrúmsloftið. Eftirfarandi eru dæmi um aðgerðir til minnkunar kolefnislosunar.

Bílar Norðurorku

Við endurnýjun á bílaflota fyrirtækisins er ávallt kannaður möguleikinn á vistvænum bílum sem uppfylla þær kröfur sem gerðar eru hverju sinni. Árið 2023 er um 45% bíla í eigu Norðurorku knúnir af metani eða rafmagni.

Flokkun sorps

Starfsfólk Norðurorku hefur fengið kynningu á flokkun sorps og flokkunarílátum hefur verið komið upp víðs vegar um fyrirtækið. Á árunum 2015-2020 hefur hluti flokkaðs sorps vegna starfsemi Norðurorku farið úr því að vera 62% upp í 85%

Rafhjól starfsfólks

Norðurorka býður starfsfólki sínu styrk til kaupa á rafmagnshjólum til einkanota. Fjöldi starfsfólks hefur nýtt tækifærið og fjárfest í rafmagnshjóli sem er vissulega kærkomið í bæjarfélagi eins og Akureyri þar sem mikill hæðamismunur er. Hluti starfsfólks kemur hjólandi til vinnu allan ársins hring sem dregur úr kolefnislosun.  

Hluti starfsfólks sem hefur keypt sér rafmagnshjól

Samgöngustyrkur til starfsfólks

Fyrirtækið hefur hvatt starfsfólk til að nýta sér vistvænan og heilssamlegan samgöngumáta til að ferðast til og frá vinnu. Með vistvænum samgöngumáta er átt við að nýttur sé annar ferðamáti en einkabifreið, t.d. ganga, reiðhjól eða almenningssamgöngur. 
Greiðsla samgöngustyrks er í samræmi við skattmat ríkisskattstjóra á hverju ári. 

Gróðursetning trjáa

Í gegnum árin hefur Norðurorka gróðursett tré og í upphafi árs 2022 átti fyrirtækið um 55 hektara af skógi sem binda koltvísýring. Síðan þá hafa verið gróðursettar 11.880 plöntur í 4 hektara lands á Reykjum í Fnjóskadal. Norðurorka hefur metnaðarfull áform um áframhaldandi skógrækt næstu ár og til stendur að halda gróðursetningu áfram á Hjalteyri og á Reykjum í Fnjóskadal.

Metanframleiðsla - föngun hauggass

Gömlu sorphaugarnir á Glerárdal voru nýttir frá 1972 til ársins 2009 og eru þeir í eðli sínu óflokkaðir haugar þ.e. öllu var blandað saman. Hauggas myndast með tímanum, við loftfirrtar aðstæður, þar sem metaninnihald er um 57%.

Hauggas sem fer beint út í andrúmsloftið er um 23x skaðlegra en CO2 sem myndast við bruna metans, t.d. í bílvél. Þess vegna er nýting á því metani, sem annars myndi streyma beint út í andrúmsloftið, mikill ávinningur fyrir umhverfið og einnig þjóðhagslega hagkvæmt að því leyti að fyrir hvern Nm3 metans sem brennt er í vél sparast um einn lítri af innfluttu jarðefnaeldsneyti.

Fjórir metanknúnir ferlivagnar og þrír strætisvagnar eru í rekstri hjá Akureyrarbæ ásamt minni metanbílum. Norðurorka er með 15 metanbíla í rekstri og fer þeim fjölgandi.

Metandælustöð á Akureyri. Strætó og þrír bílar.

Græna trektin

Í samvinnu við Vistorku, Orkusetur, Gámaþjónustu Norðurlands og Orkey var farið í markvissa söfnun á notaðri matarolíu frá heimilum með "Grænu trektinni" auk þess sem farið var í frekari söfnun á steikingarolíu frá veitingahúsum og mötuneytum. Þetta átak skilaði sér í um 50% aukningu á matarolíu til lífdísilgerðar hjá Orkey auk þess sem minni fita var sett í fráveitukerfi bæjarins.

Fallorka

Fallorka ehf. er dótturfélag Norðurorku og hefur með höndum framleiðslu og sölu á raforku til viðskiptavina um land allt. Öll rafmagnsframleiðsla Fallorku er úr vatnsafli en félagið starfrækir fjórar vatnsaflsvirkjanir við Eyjafjörð, þar af tvær í Glerá og tvær í Djúpadalsá. Árið 2022 varð orkuframleiðslan 45,9 GWst.

Vistorka

Vistorka er verkefnastofa á sviði umhverfismála í eigu Norðurorku. Unnið er m.a. með lausnir sem nýtast til að ná markmiðum um kolefnishlutlaust samfélag þar sem stóra verkefnið er orkuskipti í samgöngum.  

Árið 2017 fékk Vistorka styrk úr Orkusjóði upp á 26 milljónir króna til að taka þátt í eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu og í samvinnu við sveitarfélög á öllu Norðurlandi. Vistorka áframsamdi við Orku náttúrunnar um útfærslu og nú hafa Orka náttúrunnar og Ísorka sett upp tíu hleðslustöðvar fyrir rafbíla víðsvegar á svæðinu.

Eimur

Eimur er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Eyþings, Norðurorku og Orkuveitu Húsvíkur um bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. Starf Eims er um margt óáþreifanlegt og lýtur frekast að því að sækja tækifæri og auka þekkingu, umtal og möguleika aðila á að nýta enn frekar hliðarafurðir orkuauðlinda sem eru á svæðinu til verðmætasköpunar.

Hreinsistöð fráveitu 

Hreinsistöð fráveitu sem tekin var formlega í notkun síðla árs 2020 er svo sannarlega jákvætt skref í umhverfismálum Norðurorku og fyrir samfélagið allt við Eyjafjörð. Í hreinsistöðinni fer fram "fyrsta þreps hreinsun" þ.e. að allir fastir hlutir í fráveituvatninu eru síaðir frá með þriggja millimetra þrepasíun áður en fráveituvatnið er veitt út í fjörðinn.