Norðurorka leggur mikla áherslu á umhverfismál og í umhverfisstefnu fyrirtækisins kemur meðal annars fram að fyrirtækið muni leita leiða til að minnka kolefnisspor sitt.
Árið 2015 skrifaði Norðurorka ásamt 103 öðrum íslenskum fyrirtækjum undir loftslagsyfirlýsingu Festu og fyrirtækið hefur síðan þá tekið saman og fylgst með kolefnisspori sínu. Auk þess að hafa skuldbundið sig til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og minnka myndun úrgangs er fyrirtækið hluthafi að ýmsum verkefnum sem stuðla að kolefnishlutlausu Íslandi.
Norðurorka er aðildarfélag í Samorku, samtökum orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, en aðildarfélög Samorku hafa skuldbundið sig til að verða kolefnishlutlaus árið 2040.
Kolefnisspor Norðurorku
Árið 2018 losaði fyrirtækið ígildi 551,0 tonna CO2 en batt 3.119,6 tonn CO2, sjá mynd hér fyrir neðan. Nettó kolefnislosun fyrirtækisins var því -2.568,6 CO2.
Árið 2013 réðst Norðurorka í það verkefni að byggja metanhreinsistöð til að vinna metangas úr gömlu sorphaugunum á Glerárdal og fanga þannig það metangas sem annars myndi streyma út í andrúmsloftið.
Í gegnum árin hefur Norðurorka gróðursett 54 hektara af skógi sem bindur koltvísýring. Saman gera þessi tvö atriði það að verkum að starfsemi Norðurorku bindur mun meiri koltvísýring en fyrirtækið losar.
Þrátt fyrir þetta góða kolefnisspor fyrirtækisins leggur Norðurorka áherslu á að „fela“ ekki útblásturinn á bak við þá miklu bindingu sem fyrirtækið stendur fyrir heldur vinna markvisst í minnkun kolefnislosunar vegna starfsseminnar.
Fyrirtækið vinnur gagngert í að draga úr því kolefni sem það losar út í andrúmsloftið. Eftirfarandi eru dæmi um aðgerðir til minnkunar kolefnislosunar:
Gömlu sorphaugarnir á Glerárdal voru nýttir frá 1972 til ársins 2009 og eru þeir í eðli sínu ósorteraðir haugar þ.e. öllu var blandað saman. Hauggas myndast með tímanum, við loftfirrtar aðstæður, þar sem metaninnihald er um 57%.
Hauggas sem fer beint út í andrúmsloftið er um 23x skaðlegra en CO2 sem myndast við bruna metans, t.d. í bílvél. Þess vegna er nýting á því metani, sem annars myndi streyma beint út í andrúmsloftið, mikill ávinningur fyrir umhverfið og einnig þjóðhagslega hagkvæmt að því leyti að fyrir hvern Nm3 metans sem brennt er í vél sparast um líter af innfluttu jarðefnaeldsneyti.
Umhverfistengd verkefni sem Norðurorka tekur þátt í
Á árinu 2019 eignaðist Norðurorka að fullu Orkey ehf. sem rekur lífdísilverksmiðju á Akureyri. Lífdísill er unninn úr innlendu hráefni, svo sem notaðri steikingarfeiti frá veitingahúsum og ýmsum öðrum fitu- og olíuríkum úrgangi. Vinnsla félagsins er mikilvægur þáttur í að draga úr úrgangi sem annars gæti endað í fráveitukerfum bæjarins eða í urðun.
Vistorka ehf. er verkefnastofa eigenda Norðurorku á sviði umhverfismála. Unnið er með lausnir sem nýtast til að ná markmiðum um kolefnishlutlaust samfélag þar sem stóra verkefnið er orkuskipti í samgöngum.
Í samstarfi við Skógræktarfélag Eyfirðinga sér Vistorka um kolefnisjöfnun vegna flugferða Norðurorku innanlands með gróðursetningu trjáa.
Í samvinnu Norðurorku, Orkuseturs, Gámaþjónustu Norðurlands og Orkeyjar var farið í markvissa söfnun á notaðri matarolíu frá heimilum með „grænu trektinni“ auk þess sem farið var í frekari söfnun á steikingarolíu frá veitingahúsum og mötuneytum. Þetta átak skilaði sér í um 50% aukningu á matarolíu til lífdísilgerðar hjá Orkey. Árið 2018 var um 88 þúsund lítrum af matarolíu skilað til Orkeyjar til lífdísilframleiðslu.
Frá árinu 2016 hefur Vistorka í samstarfi við Akureyrarbæ unnið að því að metan strætisvagnar verði hluti af vagnaflotanum og í dag eru þrír strætisvagnar sem ganga aðeins á metani og fjórir minni vagnar í þjónustu fyrir fatlaða sem geta bæði gengið á metani og bensíni.
Í samstarfi við Gámaþjónustu Norðurlands kom í þeirra flota metanknúinn sorpbíll árið 2016.
Árið 2017 fékk Vistorka styrk úr Orkusjóði upp á 26 milljónir króna til að taka þátt í eflingu innviða fyrir rafbíla á landsvísu og í samvinnu við sveitarfélög á öllu Norðurlandi. Vistorka áframsamdi við Orku náttúrunnar um útfærslu og nú hafa Orka náttúrunnar og Ísorka sett upp tíu hleðslustöðvar fyrir rafbíla víðsvegar á svæðinu.
Norðurorka á 100% hlutafélagið Fallorku sem framleiðir rafmagn úr vatnsafli en árið 2018 tók Fallorka í notkun nýja 3,3 MW vatnsaflsvirkjun í Glerá ofan Akureyrar. Öll rafmagnsframleiðsla Fallorku er úr vatnsafli.
Eimur er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Eyþings, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur um bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra. Starf Eims er um margt óáþreifanlegt og lýtur frekast að því að sækja tækifæri, auka þekkingu, umtal og möguleika aðila á að nýta enn frekar hliðarafurðir orkuauðlinda sem eru á svæðinu til verðmætasköpunar.
Umhverfismál fráveitu
Fráveitumál eru mikil umhverfismál en í ársbyrjun 2014 tók Norðurorka við fráveitu Akureyrar. Síðan þá hefur fyrirtækið unnið að því að aðskilja ofanvatn og fráveitu. Árið 2018 hóf Norðurorka byggingu hreinsistöðvar sem mun taka við öllu skólpi frá Akureyri. Með þeirri byggingu verður stigið stórt framfaraspor í umhverfismálum því með tilkomu hennar mun Akureyri geta uppfyllt reglugerð um grófstigshreinsun á fráveituvatni. Stöðin mun sía allt efni frá sem er grófara en 3 millimetrar. Fasta efnið verður svo flutt á urðunarstað í Stekkjavík, norðan við Blönduós. Áætlað er að fráhreinsistöðin verði gangsett sumarið 2020.