Hreinsistöð fráveitu

Hreinsistöðin hefur verið eitt af stóru verkefnum Norðurorku síðustu ár en hún var tekin í notkun haustið 2020. 

Hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót er ein af stærri hreinsistöðvum landsins og er nokkuð ólík fyrri stöðvum í útfærslu m.a. að því leyti að hreinsistöðin er tvískipt. Þannig er hægt að loka helming stöðvarinnar í einu fyrir skólprennsli og vinna að viðhaldi án þess að stöðva rekstur stöðvarinnar.

Fráveituvatninu er aðeins dælt einu sinni upp á hreinsibúnaðinn og síðan er sjálfrennsli út um útrennslispípuna en stöðin er með tvær útrásir þ.e. 400 metra útrás og síðan álagsútrás sem er 90 metrar. Verði stöðin óvirk mun fráveituvatnið renna út um álagsútrásina.

Í þessum fyrsta áfanga er skólpið grófhreinsað, þ.e. grófefni er sigtað úr fráveituvatninu, því pakkað og það fært til urðunar.  Stærð lóðar, gerir hinsvegar ráð fyrir frekari hreinsun skólps í framtíðinni.
Hreinsibúnaðurinn, svokölluð þrepahreinsun, kemur frá Nordic water í Svíþjóð.

Sjá nánar um hreinsistöðina og byggingu hennar hér.