Rafbílar - hagnýtar upplýsingar

Orkuskipti í samgöngum á Íslandi eru hafin og ljóst er að á næstu árum mun rafbílum fjölga í auknum mæli á götunum, eftir því sem úrval rafbíla eykst. Þessari jákvæðu þróun fylgja ýmsar áskoranir, ekki síst hjá dreifiveitum rafmagns, og eðlilega vakna oft margar spurningar hjá fólki sem hyggur á kaup á rafbílum og hleðslustöðvum.

Þjónustuver Norðurorku fær jafnan mikið af fyrirspurnum þar að lútandi en meðal þess sem fólk veltir fyrir sér er hvaða búnaður henti best til hleðslu fyrir viðkomandi rafbíl og hvernig fjölbýlishús eigi að koma sér upp hleðslustöðvum.

Hér að neðan hafa verið teknar saman algengar spurningar og svör um rafbíla og útfærslur hleðslustöðva. 

Tungumál rafbílahleðslu / Helstu hugtökin

Þegar kemur að umræðu um rafbílahleðslur kemur fljótt í ljós að sum hugtök koma fyrir aftur og aftur.

Öryggi/varbúnaður (fuse)
Búnaður sem tryggir öryggi í rafmagnskerfi með því að tryggja að ákveðið magn/álag komist í gegn en verði notkun of mikil slær það út og lokar fyrir rafmagnið.

Volt (V)
Segir til um rafmagnsspennu milli fasa (víra). Almennt séð er spenna á Íslandi 230V.

Amper (A)
Segir til um rafmagnsstraum í gegnum vír eða streng. Öryggi í rafmagnstöflu eru gefin upp í stærðum sem enda á t.d. 16A sem er þá að tákna að í gegnum öryggið geta verið 16A áður en það slær út. Heimtaugar eru flokkaðar í stærðir eftir fjölda Ampera þannig að í götuskáp er öryggi af vissri stærð sem þjónar sama tilgangi og öryggi í rafmagnstöflunni. Húsnæði getur því ekki notað meira en stærð heimtaugar segir til um. 

Kílóvött (kW)
Segir til um aflið frá viðkomandi búnað/hleðslustöð. Algengast í heimahleðslu er 3,7 kW, 7,3kW, 11kW og 22kW.

Grein
Leggur eða vírar sem liggja frá einu öryggi eða vari. Á einni grein geta verið tengd mörg tæki, sbr. að mörg ljós geta verið á einum rofa.

Einfasa (single phase)
Rafmagn flutt í gegnum einn fasa, táknað með L1 og N. Með einfasa tengingu er mest hægt að ná 230V.

Þriggjafasa (three phase)
Rafmagn flutt í gegnum þrjá fasa, oft táknað með L1, L2, L3 og N. Með þriggja fasa tengingu er mest hægt að ná 400V.

Álagsstýring
Búnaður sem tryggir að ákveðið álag/notkun (straumur í Amperum) haldist undir fyrirfram ákveðnu marki. Þá sem dæmi að ef stöðin er stillt á heildarálag 32A þá getur samanlagt álag ekki verið hærra en 32A. Farbílahleðsla hefur þá til afnota allt sem húsnæði er ekki að nota af þessum 32A.

Spennukerfi (TT og TN-C)
Almennt í heimahús er TT spennukerfi heimtaugar að hámarki milli fasa 230V á meðan TN-C er 400V milli fasa. Sjá nánar um mismunandi dreifikerfi á Akureyri HÉR.

Hleðsluaðferð 2
Þessi aðferð notast við venjulegar rafmagnsinnstungur og hleðslutæki (hleðslukapal) frá framleiðanda sem fylgir yfirleitt bílnum. Ekki er mælt með þessari hleðsluaðferð til langs tíma þar sem venjulegir tenglar og raflagnir uppfylla yfirleitt ekki kröfur fyrirhílhleðslu þar sem mikil aflnotkun á sér stað oft í langan tíma. En hægt er að ráðfæra sig við fagaðila um hvernig hægt sé að útbúa tengil sérstaklega fyrir þessa hleðsluaðferð þannig að hann uppfylli allar öryggiskröfur.

Hleðsluaðferð 3
Hér er hleðslustöð orðin fasttengd með áföstum hleðslukapa eða tengi fyrir lausan hleðslukapa. Ef hleðslustöð hefur verið tengd af fagaðila má reikna með því að hún uppfylli allar kröfur um öryggi á bæði tengingum og raflagnaefni. Fasttengd hleðslustöð uppsett af fagaðila er því alltaf öryggasta leiðin til að hlaða raf- og tengiltvinnbíla. Þessar stöðvar koma líka í veg fyrir að hægt sé að rjúfa hleðslu undir álagi.

Hleðsluaðferð 4
Hraðhleðsla úr sérhæfðri hraðhleðslustöð. Hér er kapall áfastur og hleðsla fer beint inn á rafhlöður bílsins. Þá almennt séð stöðvar stærri en 22kW.

Fáðu fagfólk í verkið
Norðurorka mælir eindregið með því að leitað sé eftir ráðgjöf hjá fagaðila þegar kemur að því að velja búnað og setja hann upp. Listi yfir fagfólk sem býður uppá ráðgjöf og þjónustu varðandi bílhleðslu má finna hér.

Geta allir hlaðið rafmagnsbíl heima hjá sér?

Hægt er að hlaða rafmagnsbíla við öll sérbýli og fjölbýli en hversu mikið afl er í boði fyrir bílhleðslu getur verið mismunandi. Þar um ráða helst eftirfarandi þættir.

    • Staðsetning húsnæðis skiptir máli þar sem tvö mismunandi spennukerfi eru á Akureyri. Hægt er að sjá  frekari upplýsingar um spennukerfin og skiptingu svæða á korti HÉR.
    • Hvort húsnæði er tengt einfasa eða þriggjafasa. 

Almennt vill Norðurorka ráðleggja bíleigendum sem eru í vafa um hvaða hleðslubúnaður hentar að leita annars vegar ráða hjá rafvirkja viðkomandi húss/íbúðar eða hins vegar hjá þeim fyrirtækjum sem selja hleðslubúnaðinn. Sérstaklega á það við um búnað sem gerður er fyrir 3ja fasa rafmagn þar sem ekki er víst að sá búnaður sé nothæfur innan TT svæðis. Eins eru ekki allar heimtaugar 3ja fasa, hvorki á TT né TN-C svæðinu.  

Fáðu fagfólk í verkið
Norðurorka mælir eindregið með því að leitað sé eftir ráðgjöf hjá fagaðila þegar kemur að því að velja búnað og setja hann upp. Listi yfir fagfólk sem býður uppá ráðgjöf og þjónustu varðandi bílhleðslu má finna hér.

Hversu mikið afl þarf ég fyrir bílhleðslu?

Svarið við þessu er háð þörfum hvers og eins en mikilvægt er að skilgreina þörfina út frá því sem myndi teljast eðlilegt og horfa frekar til skynsemi heldur en þess sem mögulega gæti komið upp er hægt að draga úr áhrifum orkuskipta.

Til að átta sig á hleðsluþörf er hægt að skoða töflu með upplýsingum um hleðslugetu eftir stærð hleðslustöðvar hér að neðan (ath. að hægt er að stækka myndina með því að smella á hana).

Versta sviðsmyndin er sú ef að allir myndu setja upp stærstu hleðslustöðvarnar heima hjá sér og hlaða bíla á álagstímanum því að það myndi kalla á meiri framleiðslu (fleiri virkjanir), styrkingu flutningskerfis (fleiri og stærri raflínur) og styrkingu dreifikerfis (lagningu raflagna með tilheyrandi truflanir á umferð og rask í byggð). Þetta væri þá vegna þess að tryggja þyrfti að mikið afl sé alltaf til staðar þó svo að raunin sé bara stuttur tími innan sólahringsins.

Lykilatriðið er sem fyrr, með því að dreifa álagi eins og hægt er innan sólarhringsins getua notendur lágmarkað verulega líkur á þessari verstu sviðsmynd en samt skipt yfir í rafmagnsbíl.

Fáar stórar hleðslustöðvar eða margar minni hleðslustöðvar?

Áður en farið er í að kaupa hleðslustöð er mikilvægt að áætla þörfina, hvort sem um ræðir sérbýli eða fjölbýli.

Stórar stöðvar bjóða upp á hraðari hleðslu en yfirleitt er einungis hægt að hlaða einn eða tvo bíla í einu. Í raunveruleikanum þýðir það þá að þeir bílar sem settir eru í hleðslu yfir nótt koma í veg fyrir að aðrir geti hlaðið þar til daginn eftir. Það gæti því verið betri lausn að fjölga hleðslupunktum með því að setja frekar upp nokkrar litlar stöðvar og þar með geta fleiri hlaðið yfir nóttina.

Blönduð lausn, með einni stærri stöð og nokkrum minni, gæti hentað best til að mæta öllum þeim aðstæðum sem gætu komið upp, ekki síst við fjölbýli.

Lykilatriðið er bara að lágmarka hleðslu sem á sér stað á álagstímum með t.d. álagsstýringu eða tímastýringu.

Uppsetning búnaðar - innan og utan lóðar og innan og utanhúss (Leiðbeiningar)

Það getur þurft leyfi fyrir uppsetningu á búnaði hvort sem um ræðir innanhúss, utanhúss, innan eða utan lóðar.

Sérstaklega getur þetta verið flókið í fjölbýlishúsum og hafa því Norðurorka og Akureyrarbær tekið saman skref fyrir skref leiðbeiningar sem finna má hér að neðan.

Leiðbeiningar um uppsetningu hleðslubúnaðs fyrir rafbíla á Akureyri


Fáðu fagfólk í verkið

Norðurorka mælir eindregið með því að leitað sé eftir ráðgjöf hjá fagaðila þegar kemur að því að velja búnað og setja hann upp. Listi yfir fagfólk sem býður uppá ráðgjöf og þjónustu varðandi bílhleðslu má finna hér.

Er til nóg rafmagn á Akureyri fyrir orkuskiptin?

Svarið við þessu er fjölþætt og það fyrsta sem þarf að horfa til er framleiðsla, flutningur, dreifing og sala á rafmagni.

Norðurorka sér eingöngu um dreifingu á rafmagni á Akureyri og getur því einungis svarað fyrir það hvort dreifikerfið ráði við að dreifa rafmagni til sinna viðskiptavina.

Heimtaugar í húsnæði hafa ákveðna stærð í Amperum sem segir til um hversu mikinn straum er hægt að fá frá dreifikerfinu. Verði notkun meiri en sú stærð segir til um slær rafmagninu út annað hvort í rafmagnstöflu viðkomandi húsnæðis (nánast undantekningar laust fyrst þar) eða í götuskáp út við götu. Það er ábyrgð umráðamanns fasteignar að sjá til þess að sín neysluveita rafmagns sé þannig að notkun fari ekki umfram getu, þ.e. að halda samtíma notkun undir mörkum og því dreifa álaginu.

Líkt og með neysluveitu getur samtíma notkun líka valdið vandræðum í dreifikerfinu og því er mikilvægt fyrir samfélög að nálgast orkuskipti af skynsemi og dreifa álagi eins og hægt er með því t.d. að hlaða rafbíla sem mest utan álagstíma. Þannig er ákjósanlegast t.d. að hlaða bíla á nóttunni frekar en á dagtíma sé því viðkomið. Til framtíðar mun það líka vera hagkvæmara fyrir neytendur að dreifa álaginu þar sem verðskrár munu verða tímaháðar þannig að rafmagn verður dýrara á álagstímum. Margar lausnir eru í boði til að stýra tímasetningu hleðslu og eru margir bílar með innbyggðan hugbúnað sem stýrir tímasetningu hleðslu og hversu mikið er hlaðið inn á bílinn hverju sinni.

Áhugaverðir tenglar með hagnýtum upplýsingum um rafbíla 

Kröfur í Byggingarreglugerð

Með útgáfu reglugerðar nr. 669/2018, til breytinga á byggingarreglugerð frá 2012, hefur verið skerpt á ýmsum atriðum er lúta að hleðslu rafbíla.

Helstu breytingar með setningu þessarar reglugerðar eru að nú er skylt að gera ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði í nýbyggingum og við endurbyggingu íbúðarhúsnæðis. Gera skal mögulegt að setja upp tengibúnað við hvert stæði án verulegs kostnaðar en ekki er gert skylt að tengibúnaður sé settur upp við byggingu mannvirkis. Við hönnun bygginga til annarra nota en íbúðar skal samkvæmt breytingu á reglugerð gera grein fyrir fjölda bílastæða þar sem hleðsla rafbíla er möguleg.