ISO 9001 - Alþjóðlegur gæðastaðall.
Þann 29. desember 2009 fékk Norðurorka afhent vottorð um að gæðakerfi þess standist kröfur ISO 9001 staðalsins. Gæðakerfið tekur á öllum þáttum í starfsemi fyrirtækisins og er ætlað að auðvelda og bæta ákvörðunartöku, tryggja vörugæði, leiða til skilvirkari og betri þjónustu við viðskiptavini og styðja við umbætur í starfsemi fyrirtækisins. Kerfið er vottað af Vottun hf sem sér einnig um ytri úttektir tvisvar á ári.
HACCP / GÁMES – Alþjóðlegt matvælaeftirlitskerfi.
Norðurorka starfrækir vatnsveitur sem allar afhenda neysluvatn til viðskiptavina sinna og er þar með eitt af stærstu matvælafyrirtækjum Norðurlands. Auk þess að afhenda vatnið beint til neyslu hjá viðskiptavininum þá er Norðurorka jafnframt stór birgi fyrir önnur matvælafyrirtæki.
Gæðakerfi vatnsveitunar er vottað af Heilbrigðiseftirliti Norðurlands og tekið út reglulega. Vatnsveita Akureyrar forveri Norðurorku var eitt af fyrstu veitufyrirtækjum á Íslandi til þess að hljóta GÁMES vottun árið 1998.
Rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi
Rafmagnsöryggisstjórnunarkerfi er lögbundið öryggiskerfi sem allar rafveitur verða að hafa til að mega starfa. Kerfið er vottað af Húsnæðis- og mannvirkjastofnun og er tekið reglulega út af óháðri skoðunarstofu.
Innra eftirlit með sölumælum
Dreifiveitum (vatnsveitum, hitaveitum og rafveitum) er heimilt að koma upp innra eftirlitiskerfi með sölumælum sínum sem kemur í stað löggildingar, enda hafi kerfið verið vottað af til þess bærri skoðunarstofu og fyrir liggi heimild Neytendastofu. Norðurorka hlaut fyrst orkufyrirtækja á Íslandi slíka heimild fyrir alla sölumæla sína, þ.e. fyrir öll veitusviðin, rafveitu, vatnsveitu og hitaveitu. Heimild þar að lútandi var afhent fyrirtækinu 1. desember 2011.
Innra eftirlitskerfi Norðurorku með sölumælum er hluti af gæðakerfi fyrirtækisins og fellur undir skoðunar og úttektarreglur ISO 9001 og reglugerðir um mælifræðilegt eftirlit með raforkumælum nr. 1061/2008, ásamt síðari breytingum og um mælifræðilegt eftirlit með vatnsmælum nr. 1062/2008, ásamt síðari breytingum.
Þessi þáttur gæðakerfisins lýtur að því að tryggja réttar mælingar og að mælaskipti fari fram á réttum tíma. Fylgst er með mælunum með því að taka úrtök úr einstökum mælasöfnum (tilteknar árgerðir og tegund) og senda í prófanir hjá löggiltri prófunarstofu. Standist úrtakið prófun er heimilt að nota viðkomandi safn áfram en annars þarf að skipta því út fyrir nýtt safn, þ.e. setja upp nýja mæla.