Safnkerfi fráveitu

Safnkerfi fráveitu er yfirgripsmikið. Brunnar, stofnlagnir, heimlagnir, niðurföll, dælur, dælustöðvar, yfirföll, neyðaryfirföll og hreinsistöð eru dæmi um mannvirki og búnað sem því tilheyra.

Safnkerfi fráveitu tekur við skólpi og regnvatni frá heimilum og fyrirtækjum á Akureyri. Fráveituvatninu (skólpi og regnvatni) er safnað í stofnlagnir og það leitt í Hreinsistöð sem staðsett er í Sandgerðisbót. Þaðan er fráveituvatnið leitt útí sjó, á 40 metra dýpi og 400 m frá landi, þar sem það dreifist innan þynningarsvæðis.  Á leið sinni frá upptökum og út í sjó fer fráveituvatnið m.a. í gegnum dælustöðvar þar sem því er dælt áfram en Akureyringar eru þó tiltölulega vel í stakk búnir með bæjarstæði því yfirleitt er nægur halli til að fráveituvatnið sé sjálfrennandi. 

Í öllum nýbyggðum hverfum á Akureyri er tvöfalt fráveitu kerfi, þ.e.a.s. það eru tvö rör frá hverju húsi, annað skólp og hitt regnvatn. Skólplagnir taka við því sem kemur frá salernum, vöskum, sturtum og böðum ásamt því sem kemur frá uppþvottavél og þvottavél. Regnvatnslögnin tekur frá þakniðurföllum, niðurföllum í plönum, dren lögnum sem lagðar eru kringum hús og vatni frá heitum pottum.  Skólp og regn er aðgreint þannig að regnvatnið rennur styðstu leið til sjávar en skólpi er dælt í hreinsistöð og þaðan út í sjó. 

Í eldri hverfum bæjarins er hinsvegar einfalt kerfi, þ.e. eitt rör frá hverju húsi sem inniheldur þá bæði skólp og regnvatn. Þetta veldur því að vatnsmagnið eykst og þar með einnig álag á dælur, lagnir og búnað í hreinsistöðinni. Einfalt kerfi leiðir til þess að verið er að dæla regnvatni langar leiðir í gegnum fráveitukerfið sem mætti í raun fara beint út í sjó, auk þess sem verið er að hreinsa vatn í hreinsistöðinni sem óþarfi er að hreinsa.