Dóttur- og hlutdeildarfélög

Fallorka ehf.

Fallorka ehf. er dótturfélag Norðurorku og hefur með höndum framleiðslu og sölu á raforku til viðskiptavina um land allt. Fallorka á og rekur fjórar vatnsaflsvirkjanir sem eru Djúpadalsvirkjun I og II í Eyjafirði og Glerárvirkjun I og II á Akureyri.

Vistorka ehf.

Vistorka ehf. er verkefnastofa eigenda Norðurorku á sviði umhverfismála. Unnið er með lausnir sem nýtast til að ná markmiðum um kolefnishlutlaust samfélag þar sem stóra verkefnið er orkuskipti í samgöngum. 

Tengir hf.

Tengir hf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. og er eignarhluti félagsins rúm 38%. Fyrirtækið rekur ljósleiðaranet á Norðurlandi.

NORAK ehf.

NORAK ehf. er hlutdeildarfélag Norðurorku hf. en Norðurorka hf., Rafeignir ehf. og Álag ehf. eiga fyrirtækið að jöfnu. Félagið á og rekur spennuvirki við álþynnuverksmiðju TDK í Krossanesi sem spennir niður raforku sem kemur frá aðveitustöð Landsnets við Rangárvelli.  

Hrafnabjargavirkjun ehf.

Hrafnabjargavirkjun ehf. er að 48,75% hlut í eigu Norðurorku, 48,75% hlut í eigu Orkuveitu Húsavíkur og 2,5% eru í eigu Atvinnueflingar Þingeyjarsýslu. Félagið var stofnað um fýsileika þess að nýta vatnsorku í Skjálfandafljóti ofan Bárðárdals. 

Íslensk orka ehf.

Norðurorka er hluthafi í félaginu Íslensk orka ehf. en félagið heldur utan um jarðhitaréttindi, borholur og rannsóknir á jarðhitakerfum í Öxarfirði. Mat stjórnar Íslenskrar orku er að enn sé mögulegt að markaðssetja heitt vatn af svæðinu til iðnaðarframleiðslu komi fram áhugasamir aðilar um nýtingu og rekstur. 

Netorka hf.

Norðurorka á 7,7% hlut í Netorku hf. sem gegnir því hlutverki að vera sameiginlegt mæligagna- og uppgjörsfyrirtæki fyrir íslenskan raforkumarkað. 

Orkey ehf.

Á árinu 2019 eignaðist Norðurorka að fullu Orkey ehf. sem rekur lífdísilverksmiðju á Akureyri.
Lífdísill er unninn úr innlendu hráefni, svo sem notaðri steikingarfeiti frá veitingahúsum og ýmsum öðrum fitu- og olíuríkum úrgangi. Vinnsla félagsins er mikilvægur þáttur í að draga úr úrgangi sem annars gæti endað í fráveitukerfum bæjarins eða í urðun. 

Eimur

Eimur er samstarfsverkefni Landsvirkjunar, Eyþings, Norðurorku og Orkuveitu Húsavíkur um bætta nýtingu orkuauðlinda og aukna nýsköpun í orkumálum á Norðurlandi eystra.
Starf Eims er um margt óáþreifanlegt og lýtur frekast að því að sækja tækifæri, auka þekkingu, umtal og möguleika aðila á að fjölnýta auðlindastrauma orkuauðlinda sem eru á svæðinu til verðmætasköpunar.

Vaðlaböð ehf.

Vaðlaböð ehf. er verkefni um baðstaðinn „Svörtuloft“ sem kom út úr hugmyndasamkeppni Eims á nýtingu heita vatnsins úr Vaðlaheiðargöngum. Norðurorka er með 30% eignarhlut á móti Tækifæri hf. og Stefáni Tryggvasyni hugmyndasmið. Verkefnið er að kanna möguleika þess að koma upp aðstöðu fyrir ferðafólk og nýta til þess heita vatnið úr Vaðlaheiðargöngum. 
Norðurorka tók á sínum tíma að sér að beisla heita vatnið í göngunum og koma því út í sérlögn svo nýting til mögulegs baðstaðar væri gerleg. Ýmsar leiðir hafa verið kannaðar í uppbyggingu en segja má að verkefnið bíði fjárfesta sem sjá tækifæri í hugmyndinni og nýti til þess heita vatnið úr göngunum.

 Samorka

Norðurorka er aðili að SAMORKU, samtökum orku- og veitufyrirtækja í landinu og í gegnum þau aðili að Samtökum atvinnulífsins. Samtökin eru málsvari orku- og veitufyrirtækja og beita sér fyrir farsælliþróun í orku‐ og veitumálum á Íslandi.Eitt af meginverkefnum Samorku eru þó innri málefni svo sem kynningar-, fræðslu- og félagsstarfsemi aðildarfyrirtækjanna en í ráðum og nefndum Samorku situr fjölmargt starfsfólk aðildarfyrirtækjanna.