Dreifikerfi rafveitu

Dreifiveita rafmagns á Akureyri tekur við rafmagni í spennuvirki Landsnets á Rangárvöllum sem er hluti af flutningskerfi Landsnets.

Frá spennuvirkinu liggja 66kV jarðstrengir að aðveitustöðvum Norðurorku sem eru tvær. Annars vegar við Þingvallastræti (TIN) og hins vegar við Urðagil (KOG). Aðveitustöðin við Urðagil er kennd við bæinn Kollugerði sem þar var þegar stöðin var byggð. Einnig liggur 66kV jarðstrengur á milli aðveitustöðvanna, þannig að hægt er að taka einn legg úr rekstri vegna viðhalds eða bilana án þess að það verði rafmagnslaust. Í aðveitustöðvunum er spennan lækkuð úr 66kV í 11kV.

Frá aðveitustöðvunum er rafmagninu dreift til dreifistöðva sem eru víða um bæinn, á annað hundruð talsins. Dreifikerfið (11kV) er að mestu byggt þannig upp að hægt er að taka einstaka leggi úr rekstri án þess að þurfi að taka rafmagn af notendum. Í dreifistöðvum er spennan lækkuð úr 11kV í 230V, og þaðan dreift til notenda.

Oftast liggja um 8 til 10 strengir frá hverri dreifistöð í götuskápa, og á milli götuskápa, sem síðan greinast í heimtaugar inn til notanda. Hægt er að taka rafmagn af einstaka útgöngum eða heimtaugum vegna viðhalds eða bilana.

Heimtaug í hvert hús endar í varrofa, og þar endar dreifiveitan. Það sem er innan við varrofa er húsveita, sem er eign og á ábyrgð húseigandans.

Í hluta bæjarins eru eldri kerfi sem eru aðeins frábrugðin, en virknin sambærileg, a.m.k. á meðan um 1fasa notkun er að ræða.