15. feb 2018

Að slá köttinn úr tunnunni

Að slá köttinn úr tunnunni er gamall siður á Akureyri. Um er að ræða danskan sið sem hingað barst á 19. öld.  Upphaflega var haldinn sérstakur kattarslagsdagur, en seinna meir var þessi siður færður yfir á öskudag. Leikurinn var í upphafi í því fólginn að slá dauðan kött úr tunnu en með tímanum hvarf nú dauði kötturinn úr tunnunni og hrafn kom gjarnan í staðinn.

Árið 1964 birtist eftirfarndi grein í VÍSI en þar kemur fram að Hestamannafélagið Léttir á Akureyri hafði þá um árabil séð bæjarbúum fyrir þeirri tilbreytingu við sumarmálin að slá köttinn úr tunnunni.  Grímuklæddir riddarar í skrautklæðum þeystu þá framhjá hangandi tunnu með barefli í hendi og slógu hana.

 

 

Á öskudag árið 1967 náði svo fréttamaður RÚV einstökum myndum af ungum Akureyringum klæddum í ýmis gervi. Myndirnar og skemmtilegt myndband má sjá hér.

Það mun hafa verið í kringum árið 1970 sem starfsmenn Rafveitu Akureyrar tóku upp þennan gamla sið, að slá köttinn úr tunnunni. Í upphafi var þetta bundið við að starfsmenn og gestir þeirra komu á starfsstöð Rafveitunnar til þess að slá köttinn úr tunnunni. Nokkrum árum síðar var viðburðurinn fluttur inn á Ráðhústorg, en einnig var farið með tunnu upp á Sólborg þar sem vistmenn og starfsmenn þar slógu köttinn úr tunnunni.

Tunnan var lamin með hakasköftum þar til hún brotnaði og sá sem braut hana fékk hengda á sig viðurkenningu tunnukóngsins. Kattakóngurinn varð sá sem náði með bitlitlu sverði að höggva sundur spottann sem hélt tunnunni en í honum hékk hrafn. Þessu var síðar breytt þannig að sá sem hreinsaði tunnustafina af botninum varð tunnukóngur, en sá sem braut botnfjölina af spottanum varð kattakóngur. Auk þess að tunnukóngur og kattakóngur fengju verðlaunapening hafa jafnan einnig verið veitt verðlaun sem fyrirtæki í miðbænum hafa lagt til.

Myndin hér að ofan var tekin árið 1980 og má finna á vefsíðu Minjasafnsins á Akureyri ásamt fleiri myndum frá öskudegi í gegnum árin.

Árið 2011 var tekin ákvörðun hjá Norðurorku um að hætta að slá köttinn úr tunnunni á Ráðhústorgi. Ástæðan var sú að árin á undan hafði krökkum sem mættu á Ráðhústorgið í þessum erindagjörðum fækkað mjög sem líklega má rekja til aukinnar samkeppni.