1. apr 2022

Aðalfundur Norðurorku hf. 2022

Aðalfundur Norðurorku hf. var haldinn í gær 31. mars 2022. Eigendur félagsins eru sex sveitar­­félög, Akureyrar­­bær, Eyjafjarðar­sveit, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Svalbarðsstrandar-hreppur og Þingeyjarsveit.

Rekstur Norðurorku gekk vel á árinu 2021. Ársvelta samstæðunnar var 4,3 milljarðar króna. Hagnaður ársins er 547 milljónir króna eftir skatta, eigið fé er 12,8 milljarðar króna. Á aðalfundinum í dag var ákveðið að greiða hluthöfum 15% arð af hlutafé eða 127 milljónir króna. Samstæðureikningur samanstendur af rekstri Norðurorku og dótturfélagsins Fallorku ehf. auk áhrifa frá hlutdeildarfélögunum Tengir hf. og Norak ehf., en rekstur þeirra allra gekk vel á árinu.

Rekstur samstæðunnar var í takt við áætlanir en hagnaður nokkru meiri en áætlað var m.a. vegna jákvæðrar gengisþróunar og lægri rekstrarkostnaðar. Eiginfjárhlutfall samstæðunnar er 60,6%. Veltufé frá rekstri er 1.598 milljónir króna og handbært fé í árslok er 534 milljónir króna. Tekin voru ný „græn“ lán á árinu að upphæð 600 milljónir króna. Langtímaskuldir í árslok voru tæplega 7,4 milljarðar króna.

Til fjárfestinga samstæðunnar í endurbótum á kerfum og nýframkvæmdum var varið rúmlega 1,1 milljarða króna sem var í takt við áætlun ársins. Fjárfestingar móðurfélagsins á árinu 2022 eru áætlaðar um 1 milljarður króna en gera má ráð fyrir að áætlanir félagsins breytist nokkuð mikið á árinu 2022 horft til þeirra breytinga sem framundan eru.

Á árinu var tekin í notkun ný dælustöð á aðveitulögn Reykjaveitu til að auka flutning vatns að Grenivík. Þá var lokið við aðveitulagnir hitaveitu að Skógarböðum og aðveitulagnir neysluvatns áleiðis til Akureyrar frá Vaðlaheiðargöngum. Vísbendingar eru um að jarðhitakerfið við Hjalteyri sé fullnýtt sem þýðir að vinna þarf ný jarðhitasvæði með tilheyrandi innviðakostnaði á næstu árum. Mikil aukning er í notkun á jarðhitavatni í samfélaginu, langt umfram fólksfjölgun og rík þörf á að verðskrá hitaveitu dragi úr óþarfa notkun en „snjallmælar“ munu skapa möguleika á þrepaskiptum verðskrám.

Verkefni liðinna ára hafa verið stór og verða áfram, einkum í hitaveitu horft til framanritaðs. Áður var gert ráð fyrir að fjárhagur félagsins næði jafnvægi á næstunni en nú er áfram horft til stórra innviðaframkvæmda og því bið á því jafnvægi sem stefnt var að.

Í þessu sambandi er okkur sem samfélagi og einstaklingum ætíð hollt að muna að auðlindir okkar í heitu og köldu vatni eru ekki óþrjótandi. Við verðum að ganga vel um auðlindirnar og sýna ábyrgð á nýtingu þeirra. Sóun á heitu vatni og neysluvatni eykur og hraðar fjárfestingaþörf í innviðum, eins og áður segir, sem kallar á hækkanir á verðskrám félagsins. Því er mikilvægt að halda til haga þeim tækifærum sem felast í því að fara vel með og forðast sóun á auðlindunum.

Í stjórn Norðurorku voru kjörin þau Eva Hrund Einarsdóttir, Friðbjörg Jóhanna Sigurjónsdóttir, Geir Kristinn Aðalsteinsson, Gunnfríður Hreiðarsdóttir og Hlynur Jóhannsson. Í varastjórn voru kjörin, Hannes Karlsson, Hilda Jana Gísladóttir, Sunna Hlín Jóhannesdóttir, Víðir Benediktsson og Þórhallur Jónsson.

Vakin er athygli á að ársskýrsla Norðurorku kemur út á rafrænu formi og má nálgast hana á heimasíðu félagsins www.no.is