17. nóv 2017

Alþjóðlegi klósettdagurinn 19. nóvember

Alþjóðlegi klósettdagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur 19. nóvember ár hvert frá árinu 2013 á vegum UN Water. Honum er ætlað að minna á að ekki búa allir við þann lúxus að hafa salerni á heimili sínu, sem hefur gríðarleg áhrif á lífsgæði og lífslíkur fólks um allan heim. 

Frekari upplýsingar um daginn í ár má finna hér á heimasíðu Sameinuðu þjóðanna, en það eru undirsamtök þeirra UN Water sem bera ábyrgð á alþjóðlegri skipulagningu dagsins.

Hér á Íslandi er ástandið auðvitað allt annað og mun betra.  Við hjá Norðurorku viljum nota daginn til að vekja athygli almennings á mikilvægi þess að fara vel með fráveitukerfin okkar og passa upp á hvað látið er í klósettið. Mikilvægt er að ekki sé verið að henda í það hlutum/efnum sem eiga ekki að fara í fráveituna og hefur Norðurorka birt auglýsingu til þessa minna á þetta. Neðst í fréttinni má sjá tilvísun í auglýsinguna og velkomið er að nota hana sem leiðbeiningar t.d. við almenningssalerni, á vinnustöðum, veitingastöðum o.s.frv..

Rétt er að minna á að fita er erfið við að eiga og hún á ekki heima í fráveitukerfinu. Hún sest á rörveggi og safnar upp smáhlutum og myndar stíflur. Látum steikingarfeiti, feitar sósur, majónes, smjör og annað slíkt ekki í vaskinn eða klósettið og renna þaðan í fráveituna. Komum fitunni frekar í lífrænan úrgang eða til endurvinnslu ef við á og þar með í endurnotkun en hægt er að skila inn fitu á öllum grenndarstöðvum á Akureyri.

Norðurorka rekur fráveituna á Akureyri. Unnið hefur verið að undirbúningi byggingu hreinsistöðvar fyrir fráveituna við Sandgerðisbót en þar verður skólpið hreinsað og í framhaldinu dælt út á um 40 metra dýpi og um 500 metra vegalengd þar sem hagstæðir straumar taka við og náttúran brýtur niður efnaleifar.

Fráveitan er mikilvæg þjónusta sem fáir vilja vera án. Njótum þess að ástandið er gott hjá okkur í þessum heimshluta en mest snúa okkar vandamál að okkur sjálfum og hvernig við umgöngumst fráveituna.  Munum að klósettið er ekki ruslafata !