Á hverju ári má ætla að tæplega 200 tonn af ýmsum óæskilegum úrgangi berist í fráveitur um allt land. Það þýðir að um hálft kíló af rusli fer í klósettin eða niðurföll á hvern íbúa á landinu. Eitt af stóru verkefnum fráveitna á Íslandi er að minnka úrgang í fráveitu með því að minna á að klósettið er ekki ruslafata! Úrgangurinn skaðar lífríkið, þyngir rekstur fráveitukerfa og eykur kostnað sveitarfélaga vegna hreinsunar og förgunar á úrgangi.
Í lok árs 2020 var hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót á Akureyri tekin í notkun. Fyrstu 11 mánuði ársins 2021 hafa tæplega 17 tonn af óæskilegum úrgangi verið síuð frá fráveituvatni í hreinsistöðinni.
Í fráveitukerfi Akureyringa eru margar dælur sem sjá til þess að fráveituvatn berist að Sandgerðisbót í nýju hreinsistöðina og þaðan er því veitt út í sjó. Það er mikilvægt að muna að t.d. blautklútar eiga ekki heima í fráveitukerfinu vegna þess að þeir, ásamt öðrum hlutum sem því miður eiga til að lenda í klósettinu, geta stíflað lagnir og skemmt dælubúnað.
Hér að neðan má sjá auglýsingu sem Norðurorka hefur verið að birta um óleyfilegt niðurhal. Þegar smellt er á mynd opnast hún í PDF formi og er því skýrari, t.d. til útprentunar.
Við hvetjum ykkur til að prenta myndirnar út og hengja upp á viðeigandi stöðum, þannig hjálpumst við öll að við að minna á :-)
Verkefnið "bara piss, kúk og klósettpappír í klósettið" er samvinnuverkefni Umhverfisstofnunar og Samorku í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og heilbrigðisnefnda á landinu og er markmið þess að draga úr rusli í fráveitu og þar með álagi á umhverfið okkar. Á vefsíðu verkefnisins má finna ýmsan fróðleik og kynningarefni - www.klosettvinir.is
Opnunartími í afgreiðslu:
Alla virka daga kl. 8-12 og 13-15
Opnunartími þjónustuborðs:
Mánudag til fimmtudags kl. 8-12 og 13-16
Föstudag kl. 8-12 og 13-15:20