27. apr 2023

Ársfundur Norðurorku 2023

Fróðleg erindi voru flutt á ársfundi Norðurorku 25. apríl sl.
Fróðleg erindi voru flutt á ársfundi Norðurorku 25. apríl sl.

Ársfundur Norðurorku var haldinn þriðjudaginn 25. apríl, í framhaldi af aðalfundi. Á fundinum, sem haldinn var í Menningarhúsinu Hofi, voru flutt ýmis erindi. Hlynur Jóhannsson, stjórnarformaður Norðurorku hf. setti fundinn og bauð gesti velkomna. Af því búnu tók Þórunn Sif Harðardóttir, sveitarstjóri Svalbarðsstrandarhrepps við fundarstjórn og kynnti dagskrá fundarins.

Fyrsta erindið var Hitaveitan – Áskoranir við vatnsöflun þar sem Stefán H. Steindórsson, sviðsstjóriveitu- og tæknisviðs fór yfir þau verkefni sem blasa við í tengslum við vatnsöflun í framtíðinni auk þess að minna á hve mikilvægt það er fyrir okkur öll að vera ábyrg í orkunotkun. Heitavatnsnotkun Akureyringa hefur tvölfaldast á síðustu tuttugu árum og er vinnslusvæðið á Hjalteyri nú fullnýtt nema takist að vinna bug á innrennsli sjávar í kerfið.  Með innleiðingu snjallmæla felast tækifæri til að byggja upp verðskrár sem stuðla að skynsamlegri nýtingu á þeirri auðlind sem jarðhitinn er ásamt gagnaöflun sem stuðlað getur að minni sóun.

Stefán H. Steindórsson sviðsstjóri veitu- og t   Gunnur Ýr Stefánsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu forstjóra

Næsta erindi bar heitið Orkuskiptin í stóra samhenginu – horft frá Norðurorku. Gunnur Ýr Stefánsdóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu forstjóra sagði frá þeim áskorunum og tækifærum sem við blasa í tengslum við orkuskiptin.  Hún lagði áherslu á mikilvægi þess að raunveruleg akstursþörf væri látin ráða þegar kemur að því að velja stærð hleðslustöðva. Einnig kom fram að þegar horft er á sólarhringssveiflu afls í dreifikerfi Norðurorku, að á næturna er ónýtt afl sem heimahleðslustöð af hagstæðri stærð getur nýtt. Allt snýst þetta um að nýta kerfið betur, t.d. með álagsstýringu og koma þannig í veg fyrir margra milljóna króna ótímabærar fjárfestingar í dreifikerfinu. Gunnur sagði einnig frá sameiginlegu verkefni Norðurorku og Akureyrarbæjar þar sem verið er að kortleggja hentuga staði innanbæjar fyrir uppbyggingu á hverfahleðslustöðvum. 

Að loknu kaffihléi flutti Sunna Guðmundsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og loftslagsmála, erindið Fráveitan og rekstur nýrrar hreinsistöðvar – mikil umhverfisbót fyrir samfélagið. Hreinsistöð fráveitu var gangsett árið 2020 og hefur síðan þá hreinsað 69 tonn af rusli úr fráveitunni. Norðurorka fylgist vel með ástandi fjarðarins, sem tekur á móti hreinsuðu skólpi, með þremur vöktunaráætlunum. Ástand fjarðarins er gott og líffræðilegt ástand er í jafnvægi. Þrátt fyrir góðan árangur er Norðurorka undirbúin fyrir frekari hreinsun og strangari kröfur enda var hreinsistöðin hönnuð og byggð með það fyrir augum. 

Sunna Guðmundsdóttir, verkefnastjóri umhverfis- og loftslagsmála   Ásmundur Agnarsson, verkefnastjóri UT stjórkerfa

Ásmundur Agnarsson, verkefnastjóri UT stjórnkerfa flutti erindið Tölvu- og upplýsingaöryggi hjá Norðurorku. Tölvuárásum og tölvuglæpum hefur fjölgað jafnt og þétt um heim allan á síðustu árum. Mikilvægt er að vera á varðbergi gagnvart slíkum árásum. Stöðug uppbygging varna og viðhald tölvubúnaðar getur verið kostnaðarsamt fyrir fyrirtæki. En að lenda í tækniskuld og klóm netglæpamanna vegna úreltra innviða getur verið enn kostnaðarsamara.

Hjalti Steinn Gunnarsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs   

Síðasta erindið á dagskránni flutti Hjalti Steinn Gunnarsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs en hann fjallaði um Endurnýjun kerfa Norðurorku, spennubreytingar o.fl. Kerfin okkar eru að eldast og því er komið að endurnýjun. Þeirri framkvæmd fylgir óhjákvæmilega rask og möguleg óþægindi fyrir íbúa í grennd við framkvæmdir. En gott er að muna að allt er þetta gert með hag íbúa að leiðarljósi. Á framkvæmdasviði eru 33 starfsmenn, þar af aðeins ein kona. Þessu þarf að breyta og er það markmið sem skal nást.

Fyrir miðju fundar var eldra starfsfólk heiðrað. Starfsmannavelta er lítil hjá Norðurorku og starfsreynsla mikil og góð. Erla Björg Guðmundsdóttir mannauðsstjóri kallaði upp á svið þá starfsmenn sem láta af störfum hjá fyrirtækinu fyrir aldurs sakir og þakkaði fyrir gifturík störf í þágu þess.

   

Frá vinstri: Helgi Jóhannesson, Vignir Hjaltason, Vigfús Ingi Hauksson, Jónas Óli Egilsson og Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku. 

Eyþór Björnsson sleit fundinum og þakkaði gestum um leið fyrir komuna.

Myndir: Auðunn Níelsson

Skoðið ársskýrslu Norðurorku hér: Ársskýrsla (no.is)