15. des 2018

Bláar málningaragnir í heitavatnskerfum hjá viðskiptavinum Norðurorku

Í kjölfar mælaskipta í haust hafa Norðurorku borist tvær formlegar ábendingar frá viðskiptavinum um að síur í heitavatnskerfum hafi stíflast vegna blárra málningaragna, í báðum tilfellum ræðir kerfi með 15mm mæla. Því til viðbótar hefur fyrirtækið heyrt af þremur öðrum tilfellum sem eru óstaðfest. Norðurorka hefur haft samband við söluaðila mælanna sem hefur fengið afhentan mæli og síu úr húsi þar sem málið kom upp og áframsent það til framleiðanda mælanna til rannsóknar. 

Í kjölfar ábendinganna hætti Norðurorka að setja upp mæla af þessari gerð og verða ekki settir upp fleiri mælar sömu tegundar þar til niðurstöður rannsókna liggja fyrir.

Norðurorka harmar að málið hafi komið upp og að viðskiptavinir hafi orðið fyrir óþægindum vegna þessa. Ekki er enn vitað hvort um einangruð tilfelli er að ræða eða hvort mögulega sé um að ræða gallaða framleiðslulotu hjá mælaframleiðanda.

Ákvörðun um framhald verður tekin þegar niðurstöður rannsókna liggja fyrir en viðskiptavinir sem hafa áhyggjur af kerfum sínum vegna þessa er bent á að hafa samband við þjónustuver Norðurorku með frekari upplýsingar.