25. jan 2019

Bláar málningaragnir í heitavatnskerfum viðskiptavina Norðurorku

Norðurorku er enn að berast ábendingar um bláar málningaragnir eða lit í síum blöndunartækja og mun starfsfólk Norðurorku svara ábendingum og skipta út hitaveitumælum hjá viðkomandi.

Ákveðið hefur verið að fara í heildarútskipti á öllum hitaveitumælum frá þeim framleiðanda sem um ræðir, enda virðist stór hluti umræddra mæla vera að gefa frá sér þessar málningaragnir. Tekist hefur að tryggja nægjanlegan fjölda nýrra mæla í verkefnið samfara samningum við verktaka um útskiptin. Búast má við að verkefnið taki nokkra mánuði, en því verður flýtt eins og kostur er. í kjölfar ofangreindra mælaskipta í hitaveitunni er einnig í verkáætlun ársins að skipta út stóru mælasafni, eða um 1.000 mælum sem komnir eru á tíma. Áætlað er að því safni verði skipt út fyrir fjaraflesna orkumæla sem mæla hitaorku vatnsins samhliða hefðbundnum rúmmetrum.

Viðskiptavinir eru beðnir um að hafa samband við þjónustuver Norðurorku hafi þeir áhyggjur af kerfum sínum eða hafa orðið fyrir óþægindum sem þeir telja að stafi af málningarögnum í síum.

Eins og áður hefur komið fram harmar Norðurorka að málið hafi komið upp og mun leggja sig fram um að lágmarka óþægindi viðskiptavina.