12. maí 2016

Borun nýrrar vinnsluholu í Eyjafjarðarsveit

​Jarðborinn Nasi frá Ræktunarsambandi Flóa og Skeiða er kominn á borplanið við Botn í Eyjafjarðarsveit en þar er að hefjast borun nýrrar borholu fyrir hitaveitu Norðurorku.

Tvær vinnsluholur eru svæðinu við Botn önnur er í landi Botns en hin í landi Hrafnagils, holurnar eru sem sagt sitthvoru megin við landamerki jarðanna. Hrafnagilsholan hefur verið mun afkastameiri en sú í Botni en aðein eru um 70 m á milli þeirra. 

Upphaflega gerðu áætlanir ráð fyrir að dýpka holuna á Hrafnagili og ná um leið að hreinsa hana.  Við nánari skoðun var það talið of áhættusamt og því tekin ákvörðun um að bora nýja holu örlítið vestar en núverandi holur en nánast á milli þeirra.

Verkefnið er allt stórt og mun að öllum líkindum standa fram í ágúst n.k. Meðan á verkinu stendur þarf að fæða Vesturveitu, dreifisvæðið inn í Djúpadal og að Grund með vatni frá Laugalandi.  Þetta mun þýða að vatnið sem fer inn á kerfið verður með örlítið lægra hitastigi en þegar vatnið kemur frá Botni. Húseigendur á þessu svæði gætu því orðið varir við eitthvað minni hita á vatninu meðan á framkvæmdunum stendur.

Ónæði af framkvæmdinni verður vonandi óverulegt, en vissulega mun verða aukin umferð á svæðinu, borinn verður sýnilegur, einhver hljóðmengun gæti orðið á meðan framkvæmdum stendur og mögulega mun gufa stíga upp af svæðinu þegar lengra verður komið þegar heitt vatn rennur frá svæðinu.

Þessi nýja hola mun fá nafnið HN-13 og verða um 1.800 m djúp og með henni vonumst við til þess að fá meira vatn á svæðinu sem þýðir að innviðir hitaveitunnar á svæðinu verða betur nýttir en ella, auk þess sem rekstraröryggið mun aukast.  Allt er þetta háð því að verkið gangi eins og áætlanir gera ráð fyrir og að holan hitti þær vatnsæðar sem eru á þessu svæði.  Hins vegar þarf að árétta að alltaf fylgir viss áhætta borun eftir jarðhitavatni eins og dæmin á Eyjafjarðarsvæðinu sanna.  Á hinn bóginn hefur rannsóknum fleygt mikið fram og þetta svæði er ágætlega þekkt.  Því bindum við miklar vonir við þessa framkvæmd.

Að því marki sem framkvæmdin veldur óþægindum þá eru íbúar og gestir Eyjafjarðarsveitar beðnir velvirðingar á þeim.

Jarðborinn Naksi á vinnslusvæðinu við Botn

Jarðborinn Nasi á vinnslusvæðinu við Botn