Nú stendur yfir borun eftir heitu vatni í Ólafsfirði. Framkvæmdin er mikilvægt skref í áformum Norðurorku um að tryggja heimilum og fyrirtækjum á svæðinu stöðuga og áreiðanlega hitaveitu um ókomin ár. Ef verkið gengur eftir áætlun er gert ráð fyrir að holan verði virkjuð í lok árs 2025 eða snemma árs 2026.
Borun hófst laugardaginn 12. apríl og verður borholan um 1000-1300 metra djúp, staðsett í landi Ósbrekku, neðan við núverandi vinnsluholur. Nú er verið að bora eftir vinnslufóðringu sem á að ná niður á 450-500 metra dýpi. Efri hluti holunnar verður fóðraður til þess að fóðra af kaldara grunnvatn og auka líkur á að þær vatnsæðar sem koma inn í holuna séu í nýtilegum hita.
Ræktunarsamband Flóa og Skeiða annast borunina og er jarðborinn Sleipnir notaður við verkið.
- Efsta mynd til vinstri: Jarðborinn Sleipni í notkun. Við borunina er notað vatn úr læk ofan við borplanið og er umhverfisvæn borsápa notuð sem hjálparefni. Efnið er ekki skaðlegt umhverfinu.
- Efsta mynd til hægri: Sigurveig Árnadóttir, verkefnastjóri rannsókna og viðhalds í daglegu eftirliti á staðnum.
- Neðsta mynd til hægri: Borstangir sem fara 1000-1300 metra niður í jörðu.