19. jan 2026

Breytingar í reikningagerð vegna rafmagns

Undanfarið hefur þjónustuver verið að fá fyrirspurnir frá viðskiptavinum Norðurorku sem telja að verið sé að rukka tvöfalt fyrir rafmagnið þennan mánuðinn, en svo er að sjálfsögðu ekki. Nú eru hinsvegar breytingar í gangi í reikningagerð vegna sölu og dreifingar rafmagns. Breytingarnar eru tilkomnar vegna þess að um síðastliðin áramót hætti Fallorka smásölu á rafmagni og stór hluti viðskiptavina NO þurfti því að velja sér nýjan raforkusala.

Sala og dreifing raforku ekki lengur á sama reikningi

Vegna þjónustusamnings milli Fallorku (söluaðili) og Norðurorku (dreifiaðili), sem var í gildi til áramóta, sá Norðurorka um reikningagerð fyrir bæði sölu og dreifingu rafmagns. Þess vegna fengu viðskiptavinir Norðurorku, sem keyptu raforku af Fallorku, einn og sama reikninginn vegna sölu og dreifingu rafmagns.

Í þessum mánuði munu viðskiptavinir okkar, sem voru með söluhlutann hjá Fallorku, fá sinn síðasta reikning frá Norðurorku sem inniheldur bæði sölu og dreifingu rafmagns og er hann vegna notkunar í desember. Á sama eða svipuðum tíma mun fyrsti reikningur frá nýjum söluaðila rafmagns berast sem er þá fyrir áætlaðri notkun út janúarmánuð.

Í framhaldinu ættu viðskiptavinir Norðurorku einungis að sjá rukkun fyrir dreifingu rafmagnsins (ekki sölu) en Norðurorka sér áfram um dreifingu til heimila og fyrirtækja innan marka Akureyrarbæjar.

Nánari upplýsingar

Við bendum á að inn á „Mínum síðum“ er hægt að skoða reikninga með skýringum. Einnig er hægt að senda tölvupóst á no@no.is og óska eftir að fá útprentun á reikningi eða hringja í síma 460-1300 og fá nánari upplýsingar hjá þjónustufulltrúum okkar.