19. mar 2020

Grunnþjónustan varin v/COVID 19 - Myndband Samorku

Norðurorka, líkt og önnur orku- og veitufyrirtæki á landinu, flokkast undir samfélagslega mikilvæga innviði. Ekki þarf að taka fram að sú þjónusta sem fyrirtækið veitir, s.s. dreifing á rafmagni, neysluvatni, heitu vatni og með rekstri fráveitu, er algjört grundvallaratriði til að tryggja virkni annarra þátta samfélagsins. 

Í Norðurorku, líkt og víða annarsstaðar, hefur verið gripið til aðgerða til að tryggja samfelldan og öruggan rekstur þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn. 

Starfsfólki Norðurorku hefur verið skipt upp í hópa sem hittast ekki, fjarvinna hefur verið stóraukin, fundir eru nú teknir í gegnum fjarfundabúnað og tekið hefur verið fyrir móttökur/heimsóknir. Þjónustuver okkar er þó ennþá opið.

Við viljum biðja þá viðskiptavini okkar sem mögulega hafa tök á að sinna erindum sínum við okkur í gegnum síma 460-1300, tölvupóst no@no.is eða á mínum síðum að gera það í stað þess að koma til okkar í þjónustuver.

Samorka, samtök orku- og veitufyrirtækja á Íslandi, hefur framleitt myndband þar sem minnt er á að grunnþjónustan í landinu virkar ekki nema þegar starfsfólkið er til staðar til að reka kerfin. 

Myndbandið má nálgast hér.