23. jan 2018

Dagur rafmagnsins 23. janúar

Dagur rafmagnsins 23. janúar 2018

Í dag er rafmagnið og óteljandi notkunarmöguleikar þess orðið að sjálfsögðum hlut í hugum okkar flestra. Í daglega lífinu leiða fæstir hugann að því sem að baki býr í framleiðslu, flutningi og  dreifingu raforkunnar heim í hús til viðskiptavinarins.  Stærstur hluti dreifikerfisins hér á Akureyri er hulinn augum almennings, og tiltölulega lítið fer fyrir þeim 110 dreifistöðvum sem nauðsynlegt er að hafa með reglulegu millibili um bæinn til þess að koma rafmagninu til skila á réttri spennu og gæðum.  Sama er með lagnakerfið sem allt liggur neðanjarðar og víðast hvar útbúið með hringtengingum þannig að hægt er að tryggja fæðingu rafmagnsins úr fleiri en einni átt.

Í tilefni af degi rafmagnsins 23. janúar hefur SAMORKA, samtök veitu- og orkufyrirtækja, ákveðið að styðja verkefnið GIVEWATTS.org sem gengur út á að koma sólarorkulömpum í afskekkt þorp víðsvegar í Afríku. Með verkefninu er stuðlað að orkuskiptum í lýsingu sem m.a. gerir grunnskóla­nemendum fært að nýta raforku til ljóss í stað olíulampa við t.d. heimanám og lestur. Ekki aðeins er olían dýr heldur fylgir brennslu hennar einnig reykmengun inn í húsunum.  Í fyrra styrkti Samorka framleiðslu 160 sólarorkulampa sem eru nú í dreifingu í þorpinu Mwanza í Tansaníu en reikna má með að þessir 160 lampar breyti lífi 800 einstaklinga til hins betra þar sem að meðaltali njóta fimm einstaklingar góðs af hverjum lampa.  Hér má sjá örstutt myndband sem sýnir dæmi um afrakstur verkefnisins.

Til þess að gefa öllum tækifæri til þess að styðja verkefnið er einnig efnt til leiks á facebook og instagram undir millumerkinu #sendustraum.  Fyrir hverja mynd sem tengist rafmagni á einhvern hátt og er merkt millumerkinu mun SAMORKA leggja 300 kr. til verkefnisins GIVEWATTS.  Átakið hefst í dag, á degi rafmagnsins þriðjudaginn 23. janúar og lýkur viku síðar, þriðjudaginn 30. janúar 2018.

Svo nú er um að gera að bregða á leik og styðja um leið þetta skemmtilega og góða verkefni. Einnig skulum við í leiðinni hafa í huga hversu heppin við Íslendingar erum að njóta þeirra forréttinda að orkan okkar er ódýr um leið og hún er hrein og endurnýjanleg.

 

Facebook viðburður: https://www.facebook.com/events/1652340628165212/

Heimasíða dags rafmagnsins: www.samorka.is/dagurrafmagnsins