1. ágú 2018

Endurbótum á lagnabrúnni yfir Eyjafjarðará lokið

Mynd: Óskar Þór Halldórsson
Mynd: Óskar Þór Halldórsson

Í maí sl. lauk framkvæmdum á lagnabrú hitaveitu yfir Eyjafjarðará. Brúin, sem er neðan bæjarins Ytra-Gils, var sett upp árið 1977 til að bera stofnlögn hitaveitu frá Laugalandi til Akureyrar. 

Niðurdælingarlögnin, sem flytur bakrásarvatn að Laugalandi í Eyjafjarðarsveit frá notendum á Akureyri, ásamt háspennustreng fyrir Djúpadalsvirkjun og ljósleiðara Tengis, lá yfir ána um  kílómetra frá þeim stað sem hitaveitulögnin er yfir ána, fyrir neðan Ytra-Gil. 

Í miklu flóði í Eyjafjarðará fyrir um tveimur árum flaut niðurdælingarlögnin upp og laskaðist og því lá fyrir að ráðast þyrfti í úrbætur. Niðurstaða athugana var að ekki þótti ráðlegt að grafa niður á sama stað í ánni, vegna þess að þar eru miklir sandflákar, og því ákveðið að færa niðurdælingarlögnina, háspennustrenginn, auk ljósleiðara frá Tengi og Mílu, á brúna sem ber hitaveitulögnina yfir ána. Hafist var handa við verkið á síðasta ári og því var lokið núna á vordögum.

„Til þess að koma lögnunum  fyrir voru útbúnar sérstakar festingar á brúarstólpana sem fyrir voru. Á þessar festingar var síðan settur 400 mm kapalstigi og þessu öllu komið haganlega fyrir á honum. Lagnabrúin er um 170 metra löng og hún ber 500 millimetra stofnlögn frá Laugalandi, sem er sambærileg við stofnlögnina frá Akureyri og út á Hjalteyri, sem nú er unnið að. Stóri munurinn á þessum lögnum er sá að lögnin frá Hjalteyri er grafin í jörðu en frá Laugalandi er hún ofan jarðar,“ segir Vigfús Ingi Hauksson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs Norðurorku.

Til fróðleiks má geta þess að dælt er niður að meðaltali um 12 l/sek. af bakrásarvatni frá dælustöðinni við Þórunnarstræti til að endurnýja vatnsforðann á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit.