9. mar 2022

Háspennuskápur hífður inní dreifistöð - krefjandi aðstæður

Nú stendur yfir vinna við að endurnýja háspennuskáp í dreifistöð 11 sem staðsett er í byggingu Sundlaugarinnar á Akureyri. Háspennuskápurinn, sem sjá má á meðfylgjandi mynd, er kominn til ára sinna og er endurnýjunin hluti af fyrirbyggjandi viðhaldi.

Í morgun var nýr háspennuskápur hífður inn í dreifistöðina. Verkefnið var krefjandi þar sem nýji skápurinn er 650 kg og þurfti að hífa hann um 30 m leið og inn um hurðargat sem staðsett er undir svölum. Við fengum kranabíl frá Kranabílum Norðurlands með okkur í verkið og er óhætt að segja að allt hafi þetta gengið eins og í sögu. Á meðan á þessu stóð var Þingvallastræti, fyrir neðan Þórunnarstræti, lokað fyrir umferð.

Á næstunni verður svo unnið að því að aftengja og rífa gamla skápinn og tengja um leið nýja skápinn sem hífður var inn í stöðina í morgun. Sú vinna fer fram að nóttu til í þeim tilgangi að lágmarka óþægindi viðskiptavina sem tengjast stöðinni því óhjákvæmilega þarf að taka rafmagnið af á meðan vinna stendur yfir. Rofið verður auglýst sérstaklega.

Hér að neðan má sjá myndir sem starfsfólk Norðurorku tók í morgun (Friðþór Smárason, Róar Björn Ottemo, Sigurður Hjaltason og Gunnur Ýr Stefánsdóttir)

Mynd: Róar Björn Ottemo

Mynd: Friðþór Smárason

Mynd: Róar Björn Ottemo

Mynd: Gunnur Ýr Stefánsdóttir

Mynd: Friðþór Smárason

Siggi, Villi og Róar við nýja háspennuskápinn. Gamla feltið í bakgrunn. Mynd: Friðþór Smárason

Gamli háspennuskápurinn. Mynd: Sigurður Hjaltason