1. mar 2022

Er jarðhitakerfið á Hjalteyri orðið fullnýtt?

Hjalteyri - Lagning aðveituæðar til Akureyrar í ágúst 2019. Mynd: Axel Darri Þórhallsson
Hjalteyri - Lagning aðveituæðar til Akureyrar í ágúst 2019. Mynd: Axel Darri Þórhallsson

Undanfarin misseri hafa upplýsingar um streymi á jarðhitavatni úr Strýtunum á botni Eyjafjarðar, úti fyrir Arnarnesi, orðið til þess að Norðurorka jók tíðni mælinga á jarðhitavatninu og síðastliðið haust var komið fyrir hitanemum í útstreyminu í Strýtunum. Á heimasíðu Norðurorku er frétt um efnið frá júní 2021 þar sem farið var yfir aukna dælingu og mögulega tengingu Strýtanna við jarðahitakerfið á Arnarnesi. Vísbendingar voru í þá átt að meiri tenging væri milli Strýtanna og dælingu úr jarðhitakerfinu en áður var talið. 

Í mælingum nýverið komu fram vísbendingar um aukið klórmagn í jarðhitavatninu sem benda til snefilmagns af sjó. Í framhaldi voru hitanemarnir sóttir í Strýturnar og bendir aflestur af þeim til hins sama. Ofangreindar vísbendingar benda því til að jarðhitakerfið á Hjalteyri sé orðið fullnýtt. Það mun koma betur í ljós á næstunni, þegar dæling minnkar, hvernig jarðhitakerfið bregst við. Sé ofangreint raunin blasir við að fyrr þarf að virkja jarðhitakerfið við Syðri-Haga sem verið hefur til rannsóknar liðin ár.

Við höfum nú nýtt jarðhitakerfið við Hjalteyri í 20 ár og hefur kerfið staðið undir allri aukningu hitaveitunnar frá þeim tíma. Við getum þakkað fyrir að Hjalteyrarkerfið hafi verið svo gjöfullt sem raun ber vitni, ekki síst þegar horft er til þess að heitavatnsnotkun á Akureyri og tengdum veitum hefur tvöfaldast á þessum tuttugu árum.

Hluti af öruggum rekstri er að tryggja samfélaginu nægt heitt vatn. Hluti þess var m.a. að tryggja okkur jarðhitaréttindi á nokkrum jörðum kringum Syðri-Haga á Árskógsströnd og unnið hefur verið að rannsóknum undanfarin ár ásamt því að reka þar hitaveitu. Þar er áætlað að bora djúpa rannsóknar- og mögulega vinnsluholu seint á þessu ári eða í byrjun árs 2023. Væntingar okkar eru að jarðhitakerfið við Syðri-Haga/Ytri-Vík sé lofandi og að lagnir þaðan verði í framhaldinu tengdar inn á aðveitulögnina frá Hjalteyri til Akureyrar.

Mikilvægt er að samhliða aukinni öflun sé unnið frekar með notkunarhliðina þ.e. að umgengni okkar um jarðhitaauðlindina sé ábyrg og að jarðhitavatni sé ekki sóað eða það nýtt til verkefna sem skipta samfélagið minna máli. Í því sambandi má horfa til þess að jarðhitavatn hefur hingað til verið ódýr orkugjafi og nýting því tekið mið af því. Í náinni framtíð, horft til snjallmæla, eru tækifæri til að byggja upp verðskrár sem stuðla að skynsamlegri nýtingu á þeirri auðlind sem jarðhiti er.