14. sep 2022

Evrópska samgönguvikan og vistvænar samgöngur hjá Norðurorku

Jón Hermann Hermannsson fyrir utan hjólageymsluna sem verið er að leggja lokahönd á.
Jón Hermann Hermannsson fyrir utan hjólageymsluna sem verið er að leggja lokahönd á.

Á undanförnum árum hefur Norðurorka og starfsfólk lagt vaxandi áherslu á vistvænar samgöngur. Fyrirtækið er aðili að Lofstlagsyfirlýsingu Festu og hefur verið að skipta út eigin bílaflota fyrir metan- og rafbíla auk þess sem hópur starfsfólks réðist í hópkaup á rafmagnshjólum fyrir nokkrum árum.

Norðurorka greiðir samgöngustyrki í samræmi við skilyrði skv. skattmati Ríkisskattstjóra á hverju ári og fjölmargt starfsfólk mætir til vinnu með vistvænum hætti, allt frá nokkrum dögum, hluta úr ári og upp í alla daga ársins. Auðvitað setti Covid strik í reikninginn hjá starfsfólki Norðurorku, margir unnu að heiman og skráðu þ.a.l. engar ferðir til og frá vinnu á meðan. Langsamlega flestar ferðir voru skráðar árið 2019 þegar þær voru 4.676 eða tæplega 70 dagar á hvern einstakling í starfi það árið. Nú þegar Covid er að baki fer skráðum dögum aftur fjölgandi.

Í augnablikinu standa yfir breytingar á húsnæði NO og eitt af því sem starfsfólk hlakkar til er að taka í notkun nýtt hjólaskýli, upphitað og aðgangsstýrt. Nýja hjólaskýlið mun rúma um 30 hjól, þar verður smá viðgerðaraðstaða og hægt verður að hlaða rafmagnshjólin.

Einn af þeim sem hjólar til vinnu hvernig svo sem viðrar og allan ársins hring er Jón Hermann Hermannsson, einn af lykilstarfsfólki Norðurorku. Hann er húsasmíðameistari að mennt og stýrir fasteignaþjónustu fyrirtækisins. Jón Hermann hefur hjólað til og frá vinnu frá árinu 2016. Það segist hann aðallega hafa gert sér til heilsubótar til að byrja með en hann segist sannfærður um að hjólreiðarnar geri sér gott. "Það er líka kostur að vera ekki að burðast með tvö tonn af járni með sér í vinnuna á hverjum degi", segir hann kíminn.

"Í fyrstu hjólaði ég stundum en fljótlega var ég farinn að gera það alltaf því í raun finnst mér það svo miklu minna mál en ég hélt að það yrði. Ég segi það ekki að þetta hafi ekki verið dálítið strembið til að byrja með en staðreyndin er sú að maður er sáralítið lengur að hjóla en að keyra. Svo byggist upp þol og 2018 fékk ég rafmagnshjól úr hóppöntuninni. Mér fannst eiginlega ekki hægt að sleppa því að vera með í hóppöntuninni. Maður fékk bæði afslátt á hjólinu og styrk til kaupanna og svo var rafmagnið algjör bylting. Rafmagnið gerir það léttara að hjóla þó ég hjóli alltaf á lægstu stillingu en ég bý niðri á Eyri, sem þýðir að á morgnana er allt upp í móti þegar ég hjóla í vinnuna."

Aðspurður segist Jón Hermann telja að það skipti máli að fyrirtækin hvetji sitt fólk til að nota vistvænar samgöngur. "Hvatningin skiptir máli og það er gott að fá hjálp til að sparka sér af stað. Margir sem ég hitti spyrja út í hvernig þetta sé hjá okkur í Norðurorku og ég er viss um að ef fyrirtæki myndu veita styrk og auðvelda fólki að hjóla myndu fleiri gera það."

Varðandi greiðslu samgöngustyrks segir hann að það sé ákveðin umbun í að fá styrk en hann myndi alveg örugglega hjóla áfram þó að ekki væri greiddur samgöngustyrkur. Það er ekkert mál að hjóla á veturna, maður þarf að skipta yfir á nagladekk en það er eina sem þarf að hugsa fyrir og svo skiptir auðvitað máli að bærinn sé vel mokaður.

Jón Hermann segist ekki telja að það skipti máli á hvernig hjóli sé hjólað, auðvitað er svo margt til og mörg flott hjól til en hjólið sjálft er aukaatriði. Þegar maður hjólar allan veturinn þarf nagladekk en stundum væri gott að hafa breið dekk og stundum mjó. Umhirðan um hjólið er samt alveg örugglega meira atriði en hjólið sjálft, það þarf að smyrja, stilla gíra og passa að halda hjólinu sínu í lagi. „Hjólreiðarnar gefa mér heilmikið og hafa marga kosti. Útiveran, hreyfingin og umhverfið teljast allt til kosta og þegar maður hjólar skilur maður vinnuna meira eftir í vinnunni. Hún viðrast úr kollinum á leiðinni heim og maður er miklu ferskari þegar maður stígur inn fyrir þröskuldinn heima.“

Það er líka gaman að hjóla og að lokum trúir Jón Hermann okkur fyrir því að hann sé farinn að nota tæknina hans frænda síns og heilsa öllum sem hann mætir á leiðinni. "Núna eru allir farnir að heilsa mér á móti þó að fyrstu skiptin hafi menn verið svolítið hissa. Þeir sem ég mæti á hjólinu eru meira að segja farnir að heilsa mér í búðinni, það er krydd í tilveruna og skemmtilegt."