24. ágú 2022

Eyþór Björnsson tekinn við sem forstjóri Norðurorku

Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku
Eyþór Björnsson forstjóri Norðurorku

Eyþór Björnsson hefur nú tekið við starfi forstjóra Norðurorku af Helga Jóhannessyni sem lætur af störfum eftir að hafa gengt stöðunni frá því í apríl 2012.

Eyþór var framkvæmdastjóri SSNE sem eru sameinuð landshlutasamtök Eyþings, Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar og Atvinnuþróunarfélags Þingeyinga. Áður var Eyþór Fiskistofustjóri á árabilinu 2010-2020 þar sem hann vann m.a. með starfsfólki sínu að flutningi Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar og hefur góða þekkingu á rekstri, stjórnun og breytingastjórnun sem mun nýtast vel í starfi forstjóra. 
Eyþór er með B.Sc menntun í sjávarútvegsfræði, með MBA (Master of business Administration), diplómu í alþjóðlegum hafrétti auk diplómu í opinberri stjórnsýslu. Að auki hefur Eyþór sótt fjölmörg námskeið sem tengjast stjórnun, starfsmannamálum, fjármálum og opinberri stjórnsýslu.

Eyþór segir það vera nánast forréttindi að fá að starfa hjá fyrirtæki eins og Norðurorku. „Starfið leggst mjög vel í mig og verkefnin eru spennandi. Það er skemmtilegt og áhugavert að sjá og finna hvað starfsemi Norðurorku er gríðarlega víðtæk og yfirgripsmikil. Starfsfólk fyrirtækisins býr greinilega yfir mikilli reynslu og þekkingu og hér er valinn maður í hverju rúmi. Ég hlakka til framhaldsins.“