7. mar 2023

Fimmti og síðasti áfangi nýrrar Hjalteyrarlagnar

Vinna hafin við loka áfanga nýrrar Hjalteyrarlagnar.
Vinna hafin við loka áfanga nýrrar Hjalteyrarlagnar.
Undanfarin ár hefur verið stöðugur vöxtur í heitavatnsnotkun Akureyringa og á árunum 2000-2020 tvöfaldaðist orkuþörf hitaveitunnar. Á síðustu árum hefur hitaveitan þurft að vera á fullum afköstum yfir köldustu vetrardagana og því hefur lítið mátt útaf bregða í rekstrinum. Hvað nýja Hjalteyrarlögn varðar, er um að ræða gríðarlega stórt verkefni og mikla fjárfestingu eða rúma tvo milljarða í heild með borunum og dælubúnaði. Verkefninu er áfangaskipt og er nú komið að loka áfanganum. 

Forsagan

Vinnsla á heitu vatni hófst á Arnarnesi (Hjalteyrarsvæðinu) árið 2002 og árið 2005 var annarri vinnsluholu bætt við og var hún hugsuð fyrst og fremst sem varahola. Með vaxandi heitavatnsnotkun á þjónustusvæði Norðurorku varð þróunin sú að nota þurfti báðar holurnar allan ársins hring enda stendur Hjalteyrarsvæðið undir um 60% af því heita vatni sem notað er á Akureyri.

Flutningsgeta aðveitunnar frá Hjalteyri hefur hins vegar verið takmarkandi þáttur í nýtingu vinnslusvæðis þar sem eldri lögn (300 mm) bar ekki allt það heita vatn sem bærinn þurfti á álagstímum. Því var farið í að leggja nýja aðveituæð frá Hjalteyri til Akureyrar og er nýja aðveituæðin, sem er 500 mm, í raun hrein viðbót þar sem eldri lögnin verður nýtt áfram.

Undir botn Glerár

Vorið 2018 var þriðja holan boruð á Arnarnesi enda orðið aðkallandi að bora eina vinnsluholu til víðbótar svo að Norðurorka hefði varaholu tilbúna til að dæla úr kerfinu. Fyrsti áfangi verkefnisins var lagning innan bæjarmarka Akureyrar, þ.e. frá dælustöð Norðurorku á Glerártorgi og út fyrir Hlíðarbraut. Segja má að sá áfangi hafi verið nokkuð snúinn vegna umferðar og óvissu með legu eldri lagnakerfa í bænum. En allra flóknasti hluti þessa áfanga var lagning Hjalteyrarlagnar undir botn Glerár. Það var gert um haustið þegar dregið hafði úr vatnsrennsli árinnar. Áin var þá stífluð og leidd í gegnum þrjú stór rör. Sökkum var komið fyrir á árbotni og lögnin síðan hífð á sinn rétta stað.

Framkvæmdir við lagningu Hjalteyrarlagnar undir botn Glerár.

Loka áfanginn

Nú er vinna hafin við fimmta og síðasta áfanga nýrrar aðveituæðar milli Akureyrar og Hjalteyrar. Í þessum áfanga verkefnisins verður kaflinn frá Skjaldarvík að Hlíðarbraut á Akureyri kláraður en hann er um 5,1 km að lengd. Um er að ræða 500 mm lögn í 710 mm einangrunarkápu og sá verkfræðistofan Verkís um hönnun lagnarinnar. Steypustöðin Dalvík mun sjá um lagningu aðveituæðarinnar og undirverktakarnir þeirra, Olafson Custom og Útrás mun sjá um samsuðu á lögnunum. Rörin koma frá röraverksmiðjunni Set á Selfossi og munu starfsmenn þeirra sjá um að ganga frá einangrun á samskeytum.

 
Það er von okkar að ný Hjalteyrarlögn (og eldri lögn) muni duga samfélaginu við Eyjafjörð næstu áratugina.