20. júl 2022

Endurnýjun rafmagnsheimtauga á Eyrinni

Sumartíminn er háannatími í framkvæmdum hjá Norðurorku líkt og víða annarsstaðar. Til viðbótar við daglegan rekstur kerfanna bætist ýmiskonar reglubundið viðhald sem allt miðar að því að bæta afhendingaröryggi og tryggja sem best órofinn rekstur. Starfsemi Norðurorku er að miklu leyti falin, dreifikerfi hita-, vatns-, raf- og fráveitu eru að mestu leyti ofan í jörðunni og þar af leiðandi verða viðskiptavinir okkar ekki mikið varir við starfsemina sem þeir eru þó að nýta sér að einhverju leyti allan sólarhringinn.

Eflaust hafa einhverjir bæjarbúar orðið varir við framkvæmdir við dreifikerfi rafmagns á Eyrinni undanfarin misseri. Þar er og hefur Norðurorka unnið að endurnýjun rafmagnsheimtauga í um það bil þrjátíu hús, að hluta eða öllu leyti, ásamt því að endurnýja aðra hluta rafmagnsdreifikerfisins. Að því loknu verður hafist handa við að spennubreyta dreifikerfinu í TN-C spennukerfi (3N~400/230V). Sjá nánar um mismunandi spennukerfi á Akureyri HÉR.

Svæðið sem um ræðir tengist eldri dreifistöð sem í dag stendur á horni Gránufélags- og Norðurgötu en vegna skipulagsbreytinga hjá Akureyrarbæ sem fyrirhugaðar eru á svæðinu mun Norðurorka reisa nýja dreifistöð við Strandgötu 14 (rétt við innkeyrsluna í Hof) og færa álag yfir í nýja stöð í áföngum. Nýja dreifistöðin mun þar með leysa þá eldri af hólmi og þjóna bæjarbúum tryggilega, líkt og sú eldri hefur gert, sem og ferðalöngum sem kjósa t.d. að hlaða rafbíla á svæðinu á komandi árum.

Starfsfólk Norðurorku þakkar þeim íbúum á svæðinu sem eiga í hlut fyrir tillitsemi og góðar viðtökur.

Hér að neðan má sjá myndir sem Róar Björn Ottemo tók af Mohamad Joumaa Naser og Rúnari Inga Grétarssyni við störf á Eyrinni.

Mohamad Joumaa Naser við störf á Eyrinni. Mynd: Róar Björn Ottemo

Rúnar Ingi Grétarsson við störf. Mynd: Róar Björn Ottemo