Í haust hófust umfangsmiklar framkvæmdir hjá Norðurorku við lagningu hitaveitulagna inn á Þórssvæðið í tengslum við nýjan upphitaðan gervigrasvöll sem þar er í uppbyggingu. Verkfræðistofan Efla annaðist hönnun lagna og sá einnig um verkeftirlit ásamt Norðurorku.
Lagt var tvöfalt lagnakerfi, annars vegar fyrir framrás hitaveitu og hins vegar fyrir bakrás. Bakrásin verður nýtt til upphitunar í aflþynnuverksmiðju TDK. Lagt var rör frá Smárahlíð, um 340 metra leið, að nýju tæknirými vallarins, sem staðsett er við hlið Bogans. Verktakafyrirtækið Steingil ehf. annaðist framkvæmdina, ásamt suðumanninum Antoni Ólafssyni.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdum í Smárahlíð, sem tengjast lagningu hitaveitulagna inn á Þórssvæðið, ljúki næsta vor
Samhliða ofangreindum framkvæmdum var tækifærið nýtt og lagt rör fyrir bakrás frá Glerárskóla að nýja tæknirýminu, þar sem ekki hafði áður verið hirt bakrás frá svæðinu. Verkið var unnið af Nesbræðrum og Norðurstáli. Síðar verður einnig komið upp bakrás frá Boganum.
Til þess að hægt væri að hirða bakrás frá Glerárskóla og Boganum var ráðist í umfangsmikla lagnavinnu innanhúss, sem pípulagnafyrirtækið Bjarni Fannberg Jónasson ehf. sá um.
Þann 8. desember lauk allri lagnavinnu utandyra og eftir stendur að ljúka lagnavinnu og uppsetningu búnaðar í tæknirými vallarins.
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15