8. júl 2021

Framleiðsla metans úr gömlum ruslahaugum og vandkvæði því fólgin

Einn af tíu metanskápum á Glerárdal. Eins og sjá má eru fimm holur tengdar í skápinn. (Mynd: Gunnur …
Einn af tíu metanskápum á Glerárdal. Eins og sjá má eru fimm holur tengdar í skápinn. (Mynd: Gunnur Ýr Stefánsdóttir)

Síðustu 7 árin hefur Norðurorka framleitt metangas úr gömlu ruslahaugunum á Glerárdal fyrir ofan Akureyri. Það er mikill ávinningur falinn í föngun hauggass, og framleiðslu metangass úr því, fyrir samfélagið allt og ekki síður umhverfið.

Það voru 48 holur sem boraðar voru á sínum tíma í gömlu ruslahaugana á Glerárdal og þar er hauggasinu safnað. Gasið er svo leitt niður að sérstakri hreinsunarstöð þar sem koldíoxíð er „þrifið“ úr gasinu þannig að eftir stendur nánast hreint metangas. Metangasi er þjappað á lager og því svo dælt á bíla.

Frá því framleiðslan hófst hefur sala metans aukist jafnt og þétt á hverju ári sem er gleðilegt en hefur jafnframt leitt af sér nýjar áskoranir. Ársframleiðsla metans árið 2021 er áætluð á bilinu 270-290.000 Nm3. Söluaukning það sem af er ári þ.e. janúar til og með júní er um 16%.

Myndin sýnir selt magn metans frá árinu 2014 (ath. að árið 2021 er áætlað)


Eins og fram kom í frétt hér á heimasíðu okkar nýlega hefur afhendingaröryggi metans á Akureyri verið aukið með kaupum á nýrri þjöppustöð og hefur vinnsla metangassins gengið vel.

Undanfarið hefur þó borið á vandkvæðum við öflunina, þ.e. öflun á hauggasi uppúr gömlu ruslahaugunum. Í rekstri sem þessum erum auðvitað ýmsar áskoranir en í þessu samhengi er stærsta óvissan sú að á gömlu ruslahaugunum var óflokkað rusl urðað, hvort sem um var að ræða járn, plast, sláturúrgang, múrbrot eða annað. Það er því eðlilega erfitt að áætla með einhverri vissu hversu mikið haugurinn getur gefið.

Áður en farið var í verkefnið og byrjað að safna hauggasi á svæðinu, var haugurinn metinn og gert spálíkan um mögulegt magn af nýtanlegu magni metans úr sorphaugunum. Strax í upphafi var þó ljóst að framleiðslugeta haugsins var í hámarki árið 2010, þ.e.a.s. miðað við urðað magn og þann tíma sem liðinn var frá því að urðun var hætt. Spálíkanið gerði ráð fyrir að haugarnir ættu að geta annað upp í 600.000 Nm3 á ári, í besta falli til 2040 en í versta falli til ársins 2030.

Margt hefur verið gert til að auka og viðhalda framleiðslu metans úr haugnum m.a. endunýjun á röralögnum, safnkössum ásamt breytingum á holutoppum og búnaði til að halda hita til að tryggja framleiðslu yfir kaldasta vetrartímann. Haugurinn og hauggasframleiðslan er þó í eðli sínu ein stór tilraunastofa. Undanfarnar vikur hefur framleiðslan í haugnum ekki náð að anna auknu sölumagni með þeim gæðum sem ætlast er til. Stórar spurningar koma upp svo sem hvort framleiðsluhámarki sé náð, hvort veðráttan nú hafi þessi áhrif eða hvort um sé að ræða einhverjar aðrar breytingar sem við áttum okkur ekki á.

Sé það raunin að framleiðslugeta haugsins sé ekki meiri, erum við búin að tapa miklum tíma miðað við spálíkanið. Staðan er flókin og á næstu dögum verður með hjálp færustu sérfræðinga á sviðinu reynt að skýra málið og endurgera spálíkanið með þeim mælingum og tilraunum sem það krefst. Hlutverk Norðurorku var í byrjun að virkja hauginn með nýtingu hauggassins og var þar horft til umhverfislegra þátta enda metangas margfalt skaðlegri gróðurhúsalofttegund en CO2 sem verður til við bruna metans t.d. í bílvél, en ekki síður til þess að framleiða innlendan orkugjafa til samgangna. Nú virðist komið að nýjum ákvörðunum samfélagsins þ.e. hvort byggja eigi upp nýja framleiðslustöð fyrir metan og á hvers hendi það verði. Þetta eru spurningar sem hafa verið að þroskast í umræðunni en fá nú aukið vægi og þunga.

Á þessari stundu höfum við ekki svör við framhaldinu, vitum hins vegar að mögulega þarf því miður að takmarka sölu á metani á næstunni til að halda uppi gæðum og einnig til að framleiðsla haugsins verði í jafnvægi. Í því sambandi munum við reyna allt okkar til að einorkubílar fái metan. Það er enn von okkar að mögulegt sé að auka framleiðslu haugsins til að svara núverandi eftirspurn.