21. júl 2021

Fráveita Akureyringa og sýnatökur

Við leiðum sjaldan hugann að fráveitunni þrátt fyrir að við vildum trúlega aldrei vera án hennar. Norðurorka tók við rekstri fráveitukerfis á Akureyri í upphafi árs 2014 og hefur síðan unnið að uppbyggingu kerfisins m.a. byggingu nýrrar hreinsistöðvar sem tekin var í notkun haustið 2020.

Í hreinsistöðinni er fráveituvatn grófhreinsað, þ.e. grófefni er sigtað úr fráveituvatninu með sigtum sem hafa 3mm möskva, því pakkað og það fært til urðunar. Á fyrstu mánuðunum í rekstri hreinsistöðvarinnar voru síuð að meðaltali rúmlega 70 kíló á sólarhring af föstum efnum úr fráveituvatninu sem annars hefðu farið út í Eyjafjörðinn. Hreinsaða fráveituvatnið er svo leitt út um 400m útrás í stað 90m útrásar sem nú er álagsútrás.

Unnið var straumfræðilíkan af innri hluta Eyjafjarðar sem myndaði grunn til hönnunar og legu útrásarpípunnar á þann veg að útrásarvatnið frá hreinsistöðinni myndi ná út í sjávarstraum og berast þannig út fjörðinn en ekki inn með ströndinni. Þannig hefur, með tilkomu hreinsistöðvarinnar, dregið úr magni saurkólígerla í fjörunum við Akureyri.

Norðurorka gerir gerlamælingar fjórum sinnum á ári á 16 stöðum meðfram ströndinni frá Krossanesi og inn að Leirubrú auk þess sem Heilbrigðiseftirlitið tekur sýni reglulega.
Í þremur sýnatökum sem framkvæmdar hafa verið á þessu ári, í febrúar, apríl og júlí hafa niðurstöðurnar í öllum 48 sýnunum (3x16) nema einu verið innan þeirra marka sem getið er um í þeim reglugerðum sem fráveitan starfar eftir, þ.e. reglugerð um fráveitu og skólp annarsvegar og hinsvegar reglugerð nr. 460 um baðstaði í náttúrunni. Hér verður ekki lagt mat á hvor reglugerðin er rétthærri en það skýtur óhjákvæmilega skökku við að reglugerð um fráveitur og skólp sé strangari en reglugerð um baðstaði í náttúrunni.

Nánari upplýsingar um sýnatökur meðfram standlengjunni, niðurstöður úr sýnatökum frá árinu 2016 og þær reglugerðir sem miðað er við má finna hér á heimasíðu okkar, undir "Veiturnar okkar/fráveita".