25. júl 2019

Fráveitukerfið og sýnataka meðfram strandlengjunni

Frá árinu 2005 hafa reglulega verið tekin gerlasýni (saurkólí) meðfram strandlengjunni á Akureyri til að fylgjast með hreinleika sjávar við strandlengjuna m.t.t. saurkólímengunar. Sýni eru tekin á 16 stöðum, a.m.k. fjórum sinnum á ári af starfsfólki Norðurorku og/eða Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra.

Unnið hefur verið að endurbótum á fráveitukerfinu á Akureyri samkvæmt hönnunaráætlun allt frá árinu 1990 og er bygging nýrrar hreinsistöðvar fráveitu liður í því. Verkefnið fólst í upphafi í því að skilja að regnvatn/ofanvatn og fráveituvatn. Öllu fráveituvatni frá sveitarfélaginu er nú dælt gegnum átta dælustöðvar í eina útrás norðan Sandgerðisbótar. Útrásin sem nýtt er í dag er um 90 metra löng og verður í framtíðinni, eftir að hreinsistöðin verður tekin í notkun, nýtt sem neyðarútrás. Regnvatnið/ofanvatnið frá sveitarfélaginu rennur síðan til sjávar á hverjum stað m.a. í Pollinn. Í framangreindu felst að sjórinn meðfram strandlengjunni á að vera hreinn hvað saurkólígerla snertir, sérstaklega þó Pollurinn. Nokkur mengun berst þó suður með strandlengjunni frá útrás fráveituvatnsins en þegar hreinsistöð fráveitunnar, ásamt lengri útrás, verður tekin í notkun um mitt næsta ár nær útrásin út í strauma sem bera fráveituvatnið norður fjörðinn.

Það er þó alltaf svo að regnvatnið/ofanvatnið sem kemur úr lækjum, úr gatnakerfinu og af bílaplönum ber að einhverju marki mengun. Í því sambandi mætti hugsa sér mengun af bílum, af þrifum á kerrum við heimahús, frá lækjum sem liggja um beitilönd og úr tjörnum í sveitarfélaginu. Í einhverjum tilfellum kann einnig að vera að hús séu rangtengd þ.e.a.s. að fráveituvatnið sé tengt í regnvatnskerfið. Þannig berst alltaf einhver mengun beint til sjávar gegnum regnvatns/ofanvatnskerfið. Hér ber að geta þess að einungis lítill hluti regnvatns/ofanvatns er aðskilinn frá fráveitukerfinu þar sem í öllum eldri hverfum bæjarins hagar enn svo til að um einfalt kerfi er að ræða, þ.e. að regnvatn/ofanvatn fer í fráveitukerfið. Við miklar leysingar á vormánuðum anna dælur fráveitukerfisins ekki öllu viðbótarmagninu og kerfin fara því á yfirfall út í gegnum regnvatns/ofanvatnskerfið. Á þeim tímapunkti er fráveituvatnið verulega útþynnt og mengar þar af leiðandi minna. Árið 2018 var slíkt yfirfall á Akureyri undir hálfu prósenti en yfirfall er leyfilegt í um 5% tímans samkvæmt reglugerð um fráveitur nr. 798 frá 1999.

Meðfylgjandi er tafla yfir samfelldar sýnatökur (Norðurorku og Heilbrigðiseftirlitsins) frá árinu 2014 þ.e. eftir að Norðurorka tók við fráveitukerfinu. Í töflunni kemur fram fjöldi saurkólígerla í hverjum 100 ml af sjó. Almenna reglan er að vetrarsýnin koma verr út í ljósi þess að sólarljós flýtir niðurbroti gerla. (Athugið að hægt er að stækka myndina með því að smella á hana).

Í reglugerð um fráveitur nr. 798 frá 1999 gilda mörkin 100 saurkólígerlar/100 ml sjó (grænt) utan þynningarsvæðis meðfram strandlengju þar sem til staðar er matvælaiðnaður og/eða útivistarsvæði. Í reglugerð um baðstaði í náttúrunni nr. 460 frá 2015 gildir hinsvegar, fyrir baðstaði í 3. flokki (í sjó) þar sem ekki er um rekstur að ræða, mörkin 500 saurkólígerlar/100 ml sjó (blátt). Hér verður ekki lagt mat á hvort er rétthærra en sjá má að miðað við reglugerð um baðstaði í náttúrunni er talið réttlætanlegt, sem dæmi, að synda sjósund ef saurkólígerlafjöldi er innan 500 gerla/100 ml.

Nokkrum sinnum hafa mælst há gildi utan útrásarsvæðisins þ.e. við svæði Nökkva og við Hafnastræti. Í þeim tilfellum hafa sýni verið tekin aftur til staðfestinga og hafa þá staðfestingarsýni verið mun lægri en háu sýnin. Mögulegt er að í fyrra sýninu hafi verið fangað raunverulegt mengunarskot.

Eftir að regnvatnsútrás við Nökkva var lengd um 80 metra í apríl 2016 hefur aðeins eitt sýni  á svæðinu mælst yfir fráveitumörkum en ekkert sýni hefur verið yfir mörkum ef horft er til reglugerðar um baðstaði í náttúrunni. Sama má segja eftir að regnvatnslögnin við Hafnarstræti var lengd um 38 metra í apríl 2018 en þá hefur einungis eitt sýni mælst yfir fráveitumörkum en það var þó innan marka reglugerðar um baðstaði í náttúrunni.

 

Norðurorka vinnur áfram að því að bæta kerfin og draga úr mengun meðfram strandlengjunni. Ný hreinsistöð sem tekin verður í notkun á næsta ári er sannarlega liður í því verkefni. Í framtíðinni, þegar götur í bænum verða teknar upp og endurnýjaðar, mun regnvatnskerfið verða aðskilið fráveitukerfinu og þannig dregið úr álagi á fráveitukerfið sem styttir þann tíma enn frekar sem það fer á yfirfall.

Nýjar mælingar verða áfram birtar á heimasíðu Norðurorku. Þannig geta íbúar séð niðurstöður úr sýnatökum og metið sjálfir hvort þeir telji réttlætanlegt að stunda sjósund við strendur bæjarins.