21. des 2018

Ítarlegri upplýsingar vegna blárra málningaragna í heitavatnskerfum

Norðurorku hafa nú borist fleiri ábendingar um bláar málningaragnir eða lit í síum blöndunartækja. Ennfremur hefur starfsfólk Norðurorku tekið niður mæla á nokkrum stöðum í kerfinu til rannsókna. Eftir þá skoðun virðist vandinn víðtækari en virtist í fyrstu. Áfram er unnið með innflutningsaðila og framleiðanda mælanna í því skyni að skýra málið frekar og hefur framleiðandi fengið gallaðan mæli afhentan. Mögulega er um gallaða framleiðslulotu að ræða eða þá hitt að mælarnir eru haldnir ágalla og þola ekki þær aðstæður sem þeir eru ætlaðir til. Búið er að setja upp um 2000 mæla af umræddri mælategund á árunum 2017 og 2018 en mælarnir voru keyptir eftir útboð að undangengnum prófunum.  

Starfsfólk Norðurorku mun áfram taka niður mæla og rannsaka frá báðum árgöngum með mismunandi framleiðslunúmerum til að mögulegt sé að fá yfirsýn yfir útbreiðslu vandans og greina lotur. Búið er að gera ráðstafanir með að afla nýrra mæla og leggja drög að áætlun um útskipti komi til heildar útskipta umræddrar mælategundar. Frekari upplýsingar verða birtar þegar þær liggja fyrir. 

Eins og áður hefur komið fram harmar Norðurorka að málið hafi komið upp og mun áfram leggja sig fram um að lágmarka óþægindi viðskiptavina. 

Viðskiptavinir eru beðnir um að hafa samband við Þjónustuver Norðurorku verði þeir fyrir óþægindum í kerfum sínum s.s. stíflum sem þeir telja stafa af málningarögnum í síum.

Norðurorka óskar viðskiptavinum sínum gleðilegra jóla og færsældar á árinu 2019.