15. mar 2023

Geta allir hlaðið rafbíl heima hjá sér?

Mynd af rafbíl í hleðslu.
Mynd af rafbíl í hleðslu.

Geta allir hlaðið rafbíl heima hjá sér?

Stutta svarið er já. 

Hægt er að hlaða rafmagnsbíla við öll sérbýli og fjölbýli en hversu mikið afl er í boði fyrir bílhleðslu getur verið mismunandi. Eftirfarandi ástæður liggja þar að baki:

  • Staðsetning húsnæðis skiptir þar máli þar sem tvö mismunandi spennukerfi eru á Akureyri. Hægt er að sjá frekari upplýsingar um spennukerfin og skiptingu svæða hér.
  • Hvort húsnæði er einfasa eða þriggjafasa.

Hægt er að hlaða alla rafmagnsbíla á 230V en þá að hámarki með aflinu 3,7 eða 7,3kW. Það þýðir að á einni nóttu eða á 7 klst. væri hægt að hlaða inn á bíl u.þ.b. 126 km drægni á 3,7kW fasttengdri stöð og 252 km á 7,3kW fasttengdri stöð. Úr 16A tengli, sem er venjuleg innstunga væri hægt að hlaða 77 km drægni á bíl. 

Það eru til stærri fasttengdar stöðvar sem hlaða bílana en það er ekki þar með sagt að gæðin séu meiri eða að það sé alltaf þörf fyrir slíkar stöðvar. Auk þess sem að slíkt myndi kalla á meiri framleiðslu (fleiri virkjanir), styrkingu flutningskerfis (fleiri og stærri raflínur) og styrkingu dreifikerfis (lagningu raflagna með tilheyrandi truflunum á umferð og raski í byggð). 

Best er því að dreifa álaginu eins og hægt er, með því t.d. að hlaða bílinn á 7 klst. á næturnar (þegar álagið er minna). Þannig geta notendur stuðlað að ábyrgri orkunotkun en samt skipt yfir í rafbíla.

Á Akureyri eru góðar aðstæður fyrir rafbíla þar sem vegalengdir eru stuttar, auk þess sem hraðhleðslustöðvar eru staðsettar víða. 

Sjá upplýsingar um hleðslustöðvar á Akureyri.