4. nóv 2021

Græna trektin og orkan úr eldhúsinu


Nú er runninn upp sá tími árs sem landsmenn steikja ógrynni af laufabrauði, soðnu brauði og kleinum, auk þess sem hangikjöt og steikur eru víða á boðstólnum. Þar af leiðandi fellur meira til af steikingarolíu, tólg og fitu á heimilum landsins en á öðrum mánuðum ársins.
Því langar okkur að minna á Grænu trektina sem auðveldar fólki að safna úrgangsolíu og -fitu á heimilum, veitingastöðum og mötuneytum í stað þess að hella henni vaskinn.

En til hvers að safna afgangs olíu og fitu?

Jú, með því að safna olíu og fitu sem fellur til í eldhúsinu, þá er í fyrsta lagi komið í veg fyrir að fitan fari í fráveitukerfin, sem getur orsakað stíflur og farið illa með dælur og annan búnað. Í öðru lagi er úrgangsolía og -fita endurunnin hjá Orkey þannig að úr verður lífdísill en einn lítri af matarolíu gefur um það bil einn lítra af lífdísli. Lífdísill hefur verið notaður sem eldsneyti á dísilvélar af ýmsu tagi, íblöndunarefni á togara og nýtist einnig til framleiðslu á malbiki.

Hvernig fitu er best að safna og hvar á að skila henni?

Öll fita sem nöfnum tjáir að nefna kemur hér við sögu. Matarolían er mest áberandi en einnig á þetta við um tólg, smjör, útrunnið lýsi og harða fitu, t.d. af lambasteikinni. Rétt er að benda á að þrátt fyrir að olían/fitan sé ekki alveg hrein og jafnvel með einhverjum matarleyfum eða vatni í, þá er það í lagi því að aukaefnin eru „þrifin“ úr olíunni áður en framleiðsluferlið hefst hjá Orkey.

Á gámasvæðunum á Akureyri og í Hrísey eru sérstakir kassar (appelsínugulir að lit) fyrir ílát með olíu og fitu. Olíunni má safna og skila í hvaða íláti sem er, en með hjálp Grænu trektarinnar er auðvelt að safna henni í gosdrykkjaflöskur. 

Nánar um verkefnið

Norðurorka og Orkusetur, í samvinnu við Vistorku og Gámaþjónustu Norðurlands, hófu verkefnið með Grænu trektina árið 2015 með það markmið að safna úrgangsolíu og -fitu sem til fellur á svæðinu. Verkefnið hefur gengið vel og til Orkeyjar hafa verið að skila sér um 5.000 - 6.000 lítrar af olíu/fitu á hverjum mánuði héðan af Norðurlandi, m.a. með aðstoð Grænu trektarinnar.

Hjálpumst að við að breyta orkunni úr eldhúsinu í eldsneyti!

Hér að neðan má sjá örstutt fræðslumyndband um Grænu trektina

Græna trektin 


Grænu trektina má nálgast í þjónustuveri Norðurorku á Rangárvöllum og í anddyri Ráðhúss Akureyrar.