26. nóv 2020

Græna trektin - Jólaorkan úr eldhúsinu

Á þessum tíma árs, þegar landsmenn steikja ókjörin öll af laufabrauði, soðnu brauði og kleinum, að ekki sé talað um allt hangikjötið og steikurnar, fellur til meira af steikarolíu, tólg og fitu á heimilum landsins en í öðrum mánuðum ársins. Því er full ástæða til að minna fólk á Grænu trektina, sem auðveldar fólki að safna steikarolíu á heimilum.

Þegar Norðurorka og Orkusetur, í samvinnu við Vistorku og Gámaþjónustu Norðurlands, hófu verkefnið með Grænu trektina síðla árs 2015, var markmiðið það sama og í dag; að safna úrgangsolíu og fitu sem til fellur á heimilum og veitingastöðum/mötuneytum. Þannig er komið í veg fyrir að fitan fari í fráveitukerfin, sem getur orsakað stíflur og farið illa með dælur og annan búnað, en einnig er unnin úr henni lífdísill.

„Síðan þetta verkefni hófst árið 2015 hefur það gengið mjög vel og því fólki fjölgar jafnt og þétt sem safnar steikarolíu og fitu og skilar á grenndargámasvæði. Á öllum gámasvæðunum á Akureyri nema einu eru kassar þar sem hægt er að skila ílátum með olíu og fitu og í Hrísey er einnig slíkur móttökukassi. Einnig má skila þessu í flokkunarstöðina við Réttarhvamm. Þó svo að Græna trektin sé hugsuð til þess að skrúfa á gosdrykkjaflöskur og auðvelda fólki þannig söfnunina má skila olíunni og fitunni í hvaða ílátum sem er. "Mér sýnist að frá heimilum á svæðinu safnist nú um sex tonn af olíu og fitu en magnið frá veitingastöðum er um tífalt meira eða um sextíu tonn á ári. Að öllu samanlögðu er þetta því sem næst sjötíu tonn og munar um minna,“ segir Guðmundur H. Sigurðsson, framkvæmdastjóri Vistorku.

Úrgangsolían og -fitan er endurunnin hjá Orkey og segir Guðmundur að einn lítri af matarolíu sé einn lítri af lífdísli. Hann hefur verið notaður sem íblöndunarefni á togara Samherja og einnig nýtist hann til framleiðslu á malbiki.

Vert er þó að vekja athygli á því að öll fita sem nöfnum tjáir að nefna kemur hér við sögu. Matarolían er mest áberandi en einnig á þetta t.d. við um tólg, smjör, útrunnið lýsi og harða fitu, t.d. sem til fellur af lambasteikinni. 

Grænu trektina er hægt að nálgast í þjónustuveri Norðurorku á Rangárvöllum og í anddyri Ráðhúss Akureyrar við Geislagötu.

Myndband um Grænu trektina