21. des 2018

Hagnýtar upplýsingar fyrir eigendur rafbíla

Orkuskipti í samgöngum á Íslandi eru hafin og ljóst er að á næstu árum mun rafbílum fjölga í auknum mæli á götunum, eftir því sem úrval rafbíla eykst. Ýmsar spurningar hafa vaknað hjá fólki sem hyggur á kaup á rafbílum og hefur þjónustuver Norðurorku fengið nokkrar fyrirspurnir þar að lútandi.

Það sem fólk veltir ekki síst fyrir sér er hvaða búnaður henti til hleðslu fyrir viðkomandi rafbíl. Sem dreififyrirtæki raforku á Akureyri vill Norðurorka koma því á framfæri að tvö mismunandi kerfi raforku eru í bænum:

230V á milli fasa í þriggja fasa, þriggja leiðara kerfum.  IT kerfi.
230V á milli fasa og N-leiðara, og 400 V á milli fasa í þriggja fasa, fjögurra leiðara kerfum.  TN-C kerfi.

TN-C kerfi er almennt í öllum hverfum Akureyrar sem byggð eru eftir um 1970, t.d. ofan Mýrarvegar.  Eldri hverfi neðan Mýrarvegar, í innbænum og á Eyrinni eru að stórum hluta með IT kerfi.  Sama á við um eitt svæði í nyrðri hluta Holtahverfis. 

Á myndinni hér að neðan má sjá nokkurn veginn hvar skilin á milli kerfanna eru. Hægt er að smella á myndina fyrir betri upplausn.

 

Innan gulu rammanna er IT kerfi, en TN-C utan.  Öll endurnýjun búnaðar miðast við að IT kerfin afleggist og TN-C komi í staðinn.  Allnokkur árangur hefur náðst í því  á síðustu árum, en ljóst að mörg ár gætu liðið þangað til síðasta húsinu verður breytt.

Almennt vill Norðurorka ráðleggja bíleigendum sem eru í vafa um hvaða hleðslubúnaður hentar að leita annars vegar ráða hjá rafvirkja viðkomandi húss/íbúðar eða hins vegar hjá þeim fyrirtækjum sem selja hleðslubúnaðinn.  Sérstaklega á það við um búnað sem gerður er fyrir 3ja fasa rafmagn þar sem ekki er víst að sá búnaður sé nothæfur innan IT svæðis.  Eins eru ekki allar heimtaugar 3ja fasa, hvorki á IT né TN-C svæðinu.  Sé einhverjum spurningum í þessum efnum enn ósvarað geta bíleigendur leitað upplýsinga hjá Norðurorku.

Hagnýtar upplýsingar um hleðslu rafbíla eru aðgengilegar á heimasíðu Mannvirkjastofnunar og einnig eru upplýsingar á heimasíðu Félags íslenskra bifreiðaeigenda – FÍB.

Gott er að hafa í huga að skynsamlegast er að hlaða rafbíla eftir kl. 20 á kvöldin. Skýringin er m.a. sú að rafmagnsnotkun er almennt mikil á kvöldmatartímanum en eftir kl. 20 minnkar orkunotkun verulega. Skynsamlegt er því að nýta kvöldin og næturnar til hleðslu.

Með útgáfu reglugerðar nr. 669/2018 í júlí sl., til breytinga á byggingarreglugerð frá 2012, hefur verið skerpt á ýmsum atriðum er lúta að hleðslu rafbíla. Helstu breytingar með setningu þessarar reglugerðar eru að nú er skylt að gera ráð fyrir tengibúnaði vegna hleðslu rafbíla við hvert bílastæði í nýbyggingum og við endurbyggingu íbúðarhúsnæðis. Gera skal mögulegt að setja upp tengibúnað við hvert stæði án verulegs kostnaðar en ekki er gert skylt að tengibúnaður sé settur upp við byggingu mannvirkis. Við hönnun bygginga til annarra nota en íbúðar skal samkvæmt breytingu á reglugerð gera grein fyrir fjölda bílastæða þar sem hleðsla rafbíla er möguleg.