13. júl 2022

Hitaveitubrunnur fjarlægður - Hvannavellir

Búið að fjarlægja brunninn og verið að undirbúa nýjar lagnir fyrir suðu (Mynd: Guðbjörg Sandra Gunna…
Búið að fjarlægja brunninn og verið að undirbúa nýjar lagnir fyrir suðu (Mynd: Guðbjörg Sandra Gunnarsdóttir)

Í dag hefur verið unnið að því að fjarlægja hitaveitubrunn sem staðsettur er á Hvannavöllum. Vegna þessa hefur hluti Glerárgötu, Furuvalla, Hvannavalla og Tryggvabrautar verið heitavatnslaus frá því snemma í morgun. Byrjað var að hleypa vatni á aftur um kl. 15 og um kl. 16 voru allir komnir með heitt vatn.

Líkt og Akureyringar og fjölmargir gestir bæjarins hafa tekið eftir undanfarnar vikur hafa verið miklar framkvæmdir á svæðinu, þar á meðal framkvæmdir við gatnagerð á vegum Akureyrarbæjar og því eru samlegðaráhrif falin í því að gera nauðsynlegar breytingar á dreifikerfi veitna á svæðinu svo sem fjarlægja hitaveitubrunna og endurnýja eldri lagnir.

Umræddir hitaveitubrunnar eru steinsteypt jarðhýsi þar sem ýmsar tengingar lagna koma saman, þenslustykki, lokar og fleira. Með breyttri tækni og efni eru þessir brunnar orðnir úreltir og gera langtímaáætlanir Norðurorku ráð fyrir því að brunnarnir verði lagðir af með tíð og tíma. Í stað hitaveitubrunns eru settir jarðvegslokar sem gera það að verkum að starfsfólk þarf ekki lengur að fara ofan í hættulegan brunninn til að skrúfa fyrir loka komi upp bilanir á aðliggjandi lögnum eða ef tengja þarf ný hús inn á þær.

Í hitaveitukerfi Norðurorku er töluverður fjöldi af gömlum hitaveitubrunnum en eitt af viðhaldsverkefnum fyrirtækisins er að fjarlægja þessa brunna úr kerfinu og bæta þannig afhendingaröryggi veitunnar, öryggi starfsfólks og bæta vinnuaðstæður. Það að fjarlægja hitaveitubrunn er stórt verk sem krefst þess m.a. að vatn sé tekið af ákveðnum svæðum á meðan vinna stendur yfir.

Hér að neðan má sjá myndir sem Guðbjörg Sandra Gunnarsdóttir tók á framkvæmdasvæðinu í dag.

Verið að brjóta niður gamlan hitaveitubrunn með fleyg

Búið að fjarlægja brunninn og verið að koma nýjum lögnum fyrir

Búið að fjarlægja brunninn og verið að undirbúa nýjar lagnir fyrir suðu