13. júl 2017

Hreinsistöð fráveitu

Norðurorka hefur unnið að undirbúningi byggingar hreinsimannvirkis fyrir fráveitu Akureyrar frá árinu 2014 þ.e. frá þeim tíma sem félagið yfirtók fráveitukerfið.
Framkvæmdin í heild sinni þurfti að fara í gegnum mat á umhverfisáhrifum, ferli sem tók rúmlega eitt ár. Niðurstaða Skipulagsstofnunar lá fyrir í febrúar sl. og var þá hafist handa við ýmsar undirbúningsframkvæmdir á verkstað. Í maí sl. var bygging hreinsimannvirkisins boðin út. Engin tilboð bárust í framkvæmdina en tilboðsfrestur var til 12. júní sl.
Í ljósi þeirrar þenslu sem er á byggingamarkaði ákvað stjórn Norðurorku að bíða með nýtt útboð í bili en fylgst verður með ástandi á byggingamarkaði og verður verkefnið áfram í forgangi. Í upphafi var áætlað að hreinsimannvirkið yrði tekið í notkun seinni part árs 2018 en nú er ljóst að því seinkar.