10. okt 2016

Hreinsistöð fráveitu - frummatsskýrsla

Frummatsskýrsla fyrir hreinsistöð fráveitu í Sandgerðisbót er nú í kynningarferli hjá Skipulagsstofun og er frestur til að gera athugasemdir við hana til 23. nóvember nk.

Frummatsskýrslan liggur frammi til kynningar frá 12. október 2016 til 23. nóvember 2016.  Skýrsluna er hægt að nálgast hér á heimasíðu Norðurorku (sjá hlekki í þessari frétt) og á heimasíðum Skipulagsstofnunar, www.skipulag.is og EFLU www.efla.is.

Allir hafa rétt til að kynna sér skýrsluna og leggja fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast eigi síðar en 23. nóvember 2016 til Skipulagsstofnunar, Laugavegi 166, 105 Reykjavík.

Hreinsistöð fráveitu
Undirbúningur fyrir byggingu hreinsistöðar fráveitu við Sandgerðisbót á Akureyri hefur staðið í nokkurn tíma og er einn þáttur undirbúningsins að fara í gegnum umhverfismat með fyrirhugaða framkvæmdina og hluti þess er síðan framlagning frummatskýrslunnar. 

Í hreinsistöðinni verður skólp frá Akureyri grófhreinsað og því veitt út í sjó, um 400 metra frá landi, á 40 metra dýpi, þar mun skólpið dreifast innan skilgreinds þynningarsvæðis. Eftir að framkvæmdum lýkur ætti skólp ekki að komast að ströndinni og draga ætti úr magni saurkólígerla í sjónum við Akureyri. Jafnframt verður ástand viðtakans vaktað með reglulegu millibili samkvæmt nýrri vöktunaráætlun. Grófa efnið sem síað er frá í stöðinni verður pakkað og fært til urðunar.

Drög að tillögu að matsáætlun voru kynnt almenningi um tveggja vikna skeið í apríl og maí 2016, og nú liggur frummatsskýrsla frammi. Í henni er fyrirhugaðri framkvæmd lýst og fjallað um áhrif hennar á umhverfið, með áherslu á landnotkun, viðtakann og lyktarónæði.

Frummatsskýrsluna má sjá hér.

Hreinsistöð fráveitu kort loftmynd úr frummatsskýrslu