11. jún 2021

Hreinsunarátak starfsfólks Norðurorku

Í vikunni kom hópur starfsfólks Norðurorku, auk maka, barna og barnabarna, saman eftir vinnu og tók til hendinni.  Á myndinni má sjá flesta sjálfboðaliðana í lok dags. 

Hópurinn sem samanstóð af tæplega 40 einstaklingum, stórum og smáum, lét rigninguna ekki á sig fá. Farið var í næsta nágrenni við höfuðstöðvar Norðurorku og ógrynni af rusli safnað saman á tveimur tímum. Plast af ýmsum stærðum og gerðum var áberandi. 

Umhverfismál hafa á undanförnum árum fengið aukið vægi hjá Norðurorku og rímar þetta hreinsunarátak vel við umhverfisstefnu Norðurorku. Fyrirtækið leggur áherslu á virðingu við náttúruna og jákvætt kolefnisfótspor en í því felst m.a. að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif. Í þessu sambandi má geta þess að rúmlega þriðjungur þjónustubíla Norðurorku gengur fyrir vistvænum orkugjöfum, metangasbílar og einn rafmagnsbíll.

Segja má að hreinsunarátakið sé orðinn fastur liður á vorin en þetta er í fjórða sinn sem starfsfólk Norðurorku leggur sitt að mörkum í umhverfismálum með þessum hætti.