24. mar 2020

Klósettið er ekki ruslafata !

Það er mikilvægt að muna að klósettið er ekki ruslafata. 

Hreinsistöð fráveitu við Klettagarða í Reykjavík er nú óstarfhæf með þeim afleiðingum að óhreinsað skólp fer í sjó. Ástæðan er gríðarlegt magn af blautklútum, m.a. sótthreinsiklútum í fráveitukerfinu. Eins og fram kemur á heimasíðu Veitna hefur magn slíkra klúta aukist margfalt í fráveitukerfinu undanfarna daga með þeim afleiðingum að mikið álag er á búnað kerfisins.

Á Akureyri er bygging hreinsistöðvar langt komin og verður hún tekin í notkun í sumar. Margar dælur eru í fráveitukerfi Akureyringa en þær sjá til þess að skólpið berist að Sandgerðisbót þaðan sem því er veitt út í viðtakann. Enn sem komið er hefur ekki borið á aukningu slíkra klúta í fráveitukerfinu á Akureyri og fyrir það ber að þakka. Akureyringar virðast vera vel meðvitaðir um að klósettið er ekki ruslafata og að klútar sem þessir, hvort sem þeir eru notaðir á andlit og líkama eða til þrifa og sótthreinsunar, eiga ekki heima í fráveitukerfinu.

Hér að neðan má sjá auglýsingu sem Norðurorka hefur verið að birta undanfarin ár um óleyfilegt niðurhal.
Með því að smella á myndina opnast hún í PDF formi og er því skýrari (t.d. til útprentunar).