Föstudaginn 24. október 2025 eru 50 ár liðin frá því að konur lögðu fyrst niður störf til að krefjast jafnréttis. Á hálfri öld hefur mikið áunnist en enn er langt í land. Af því tilefni munu konur og kvár leggja niður launaða og ólaunaða vinnu allan daginn 24. október – eins og konur gerðu þegar fyrst var boðað til kvennafrís árið 1975. Með verkfallinu er mótmælt vanmati á störfum kvenna, kynbundnum launamun og kynferðislegu ofbeldi á konum og kvárum.
Við erum mjög stolt af því að kynbundinn launamunur innan Norðurorku mælist afar lítill og hallar ekki á konur þegar föst laun eru skoðuð. Engu að síður þykir okkur óásættanlegt að útbreiddasti faraldur samfélagsins sé kynbundið ofbeldi og sú staðreynd að framlag kvenna er gróflega vanmetið og að atvinnutekjur kvenna séu mun lægri en karla. Konur og kvár innan Norðurorku eru því hvött til að leggja niður störf föstudaginn 24. október og taka þátt í baráttufundi á Ráðhústorgi kl. 11:15–12:00. Fjarvistir vegna þátttöku í kvennaverkfallinu verða ekki taldar óréttmætar né verður dregið af launum vegna þeirra.
Opið verður hjá Norðurorku þennan dag og starfsfólk mun sinna verkefnum og fyrirspurnum eftir bestu getu. Við biðjum notendur okkar þó um að sýna þolinmæði vegna óhjákvæmilegra tafa.
Sýnum samstöðu og samhug með konum og kvárum – saman stöndum við gegn misrétti.
Sjá nánar um kvennaverkfallið hér
Opnunartími Norðurorku
Opið virka daga kl. 8-12 og 13-15