23. okt 2023

Kvennaverkfall 24. október - Norðurorka sýnir samstöðu

Sýnum samstöðu og samhug með konum og kvárum og upprætum misrétti.
Sýnum samstöðu og samhug með konum og kvárum og upprætum misrétti.

Boðað er til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október undir yfirskriftinni Kallarðu þetta jafnrétti?

Þriðjudaginn 24. október 2023 eru konur og kvár hvött til að leggja niður launaða og ólaunaða vinnu allan daginn eins og konur gerðu þegar fyrst var boðað til kvennafrís á kvennaári Sameinuðu þjóðanna árið 1975. Með verkfallinu er um ræða sérstök mótmæli gegn vanmati á störfum kvenna ásamt kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi gegn konum og kvárum. Norðurorku hefur borist áskorun um að sýna konum og kvárum stuðning í baráttunni með því að hvetja þau til þátttöku í kvennaverkfallinu án þess að það hafi áhrif á laun þeirra eða kjör.

Við hjá Norðurorku erum mjög stolt af því að kynbundinn launamunur mælist afar lítill hjá okkur og það hallar ekki á konur þegar föst laun eru skoðuð. Engu að síður þykir okkur óásættanlegt að útbreiddasti faraldur samfélagsins sé kynbundið ofbeldi og sú staðreynd að framlag kvenna er gróflega vanmetið og atvinnutekjur kvenna enn 21% lægri en karla. Þess vegna hefur verið tekin ákvörðun um að verða við áskoruninni og eru konur og kynsegin fólk innan Norðurorku því hvött til að leggja niður störf allan daginn 24. október og taka þátt í baráttufundi á Ráðhústorgi kl. 11:00-12:00. Ekki verður litið á fjarvistir kvenna og kvár vegna þátttöku í verkfallinu sem óréttmætar né verður dregið af launum vegna þeirra.

Opið verður hjá Norðurorku þriðjudaginn 24. október. Við munum sinna verkefnum og fyrirspurnum eftir bestu getu en biðjum notendur okkar þó um að sýna þolinmæði vegna óhjákvæmilegra tafa.

Sýnum samstöðu og samhug með konum og kvárum og upprætum misrétti.

Sjá vefsíðu kvennaverkfallsins hér.