13. nóv 2020

Meðburður í heita vatninu á Akureyri

Lagning 2. áfanga Hjalteyrarlagnar sumarið 2019 (Ljósmynd: Auðunn Níelsson)
Lagning 2. áfanga Hjalteyrarlagnar sumarið 2019 (Ljósmynd: Auðunn Níelsson)

Undanfarnar vikur hefur eitthvað borið á meðburði í hitaveitukerfi bæjarins, aðallega er um að ræða sand og leirefni. Þetta er afskaplega hvimleitt, efnið safnast í síur hjá notendum og getur þannig dregið verulega úr rennsli vatns.

Ein ástæða fyrir þessu er lagning nýrrar aðveituæðar frá Hjalteyri en alltaf má búast við að einhver óhreinindi fylgi slíkri framkvæmd. Önnur ástæða er að dreifikerfi bæjarins er í auknum mæli fætt frá norðri með þeim afleiðingum að uppsafnaður meðburður, sem liggur í rörum, ýfist upp og fer af stað. Á sama tíma eykst einnig streymishraði í lögnum dreifikerfisins í vetrarbyrjun við aukna notkun.

Lagning nýju aðveitulagnarinnar er liður í að tryggja Akureyringum og nærsveitungum nægt framboð af heitu vatni.

Starfsfólk okkur hefur undanfarið skolað út dreifikerfið þar sem því er við komið sem og hreinsað síur hjá notendum.

Við biðjumst velvirðingar á þeim óþægindum sem þetta kann að valda og vonumst til að jafnvægi komist á kerfið á næstu dögum.